Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Full karfa af óskilamunum dag hvern

Mynd með færslu
 Mynd:

Full karfa af óskilamunum dag hvern

27.01.2014 - 16:02
Stór karfa af óskilamunum verður eftir í Fífunni í Kópavogi og íþróttahúsinu í Smáranum á hverjum degi að sögn Ástu B. Gunnlaugsdóttur rekstrarstjóra. Hún segir merkingar á fötum gagnast lítið ef þau séu ekki merkt með símanúmeri. Að sama skapi er mikið magn af óskilamunum í skólum og leikskólum

Stór karfa af óskilamunum verður eftir í Fífunni í Kópavogi og íþróttahúsinu í Smáranum á hverjum degi að sögn Ástu B. Gunnlaugsdóttur. Hún segir merkingar á fötum gagnast lítið ef þau séu ekki merkt með símanúmeri. Til að mynda séu ósóttar fjórar körfur af merktum óskilamunum þrátt fyrir að hringt hafi verið í eigendur. Þegar hringt sé í annað sinn segir eigendurnir jafnvel: "Æi þú mátt bara gefa þetta." Ásta segir ekki marga sinna þeirri þjónustu að hringja í eigendur og margir séu þakklátir en það skili þó langt í frá nógu góðum árangri. Meðal hluta sem ekki er hirt um séu dýrar úlpur frá 66°norður að andvirði nærri áttatíu þúsund krónur.

Vildu að fötin skiluðu sér betur heim
„Umfang óskilamuna er gríðarlegt," segir Þorsteinn Sæberg, skólastjóri Árbæjarskóla. Hann segir foreldradaga og aðra opna daga nýtta til að vekja athygli á óskilamununum. Þá er mununum raðað upp á borð til að auðvelda foreldrum aðgengi og yfirsýn. Það skili þó ekki eins miklum árangri og vonir standi til. Meðal óskilamunanna eru rándýrar úlpur og gallar að sögn Þorsteins. „Við vildum gjarnan að fötin skiluðu sér betur heim." Ef ekki hefur gengið að koma fötum til skila eftir tvö til þrjú ár hefur þeim verið komið áfram til Rauða krossins eða Mæðrastyrksnefndar.

Fer til hjálparstarfs
Sigrún Jóhannsdóttir, hjá fatasöfnun Rauða krossins, segir mikið af óskilamunum koma til þeirra frá skólum, leikskólum, íþróttafélögum, heilsuræktarstöðvum og sundstöðum. Hún segir magnið hafa aukist undanfarin ár og telur hún betri umhverfisvitund eiga sinn þátt í því. Þar fyrir utan sé fyrir hendi almennur vilji til að koma heilum fatnaði þangað sem hans er þörf. Heill fatnaður fer í fatasölu og hjálpastarf. Þannig koma til dæmis merkt íþróttaföt að góðum notum í útlöndum þótt þau séu ekki nýtt hér á landi. Þar geti nöfn barna á búningum allt eins verið nöfn íþróttafélaga eða styrktaraðila.