Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Frumvarp um þungunarrof algjörlega óverjandi

02.05.2019 - 14:50
Guðmundur Ingi Kristinsson
Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins og flutningsmaður breytingartillögunnar. Mynd: RÚV
Flokkur fólksins telur nýtt frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem heimilar þungunarrof fram á 22. viku meðgöngu algjörlega óverjandi, siðferðislega rangt og ganga gegn lífsrétti ófæddra barna. Þetta kemur fram í nefndaráliti með breytingartillögu flokksins að frumvarpinu.

Í gildandi lögum um þungunarrof er kveðið á um að slíkar aðgerðir skuli helst ekki framkvæma eftir lok 12. viku meðgöngutímans og aldrei síðar en eftir þá 16., „nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.“

Í frumvarpi heilbrigðisráðherra er enga slíka fyrirvara að finna og þungunarrof heimilað í öllum tilvikum fram til loka 22. viku meðgöngu. Nokkurrar andstöðu hefur gætt við frumvarpinu en meðal þeirra sem gagnrýnt hafa það eru biskup Íslands Agnes M. Sigurðardóttir og nokkur trúfélög.

Það er mat flytjenda breytingatillögunnar, sem Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins fer fyrir, að útvíkkaðar heimildir til þungunarrofs séu algjörlega óverjandi, siðferðilega rangar og gangi gegn lífsrétti ófæddra barna. Við lok 22. viku sé meðganga hins ófædda barns rúmlega hálfnuð. Ekki sé hafið yfir allan vafa að ótímabær fæðing við lok 22. viku þýði að lífslíkur fyrirbura sé engar.

„Um er að ræða aðgerð sem bindur enda á líf ófædds barns sem hugsanlega gæti lifað af fæðingu á þessu stigi meðgöngunnar. Læknar sverja eið að því að bjarga og vernda líf ef þess er nokkur kostur, ekki að eyða því. Þessi óhóflega rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni gengur þvert gegn sannfæringu og siðferði allra þeirra sem virða rétt ófædda barnsins til lífs“, segir enn fremur í breytingartillögunni.

Lagt er til að heimild til þungunarrofs verði miðuð við núgildandi löggjöf. Borin sé virðing fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna og yfirráðum yfir eigin líkama en mörkin dregin gagnvart lífsrétti hins ófædda barns með þessum hætti.

Fram kemur í breytingartillögunni að orðalag í frumvarpi heilbrigðisráðherra sé óásættanlegt. Hugtakið fóstureyðing endurspegli þann verknað sem í aðgerðinni felist en með því að skipta því út fyrir þungunarrof sé horft fram hjá alvarleika hennar og þess freistað „að færa hana í búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda enda á líf ófædds barns í móðurkviði.“