Frumvarp um persónuverndarlöggjöf væntanlegt

08.05.2018 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra leggur fram frumvarp á Alþingi á næstu dögum sem snýr að nýrri persónuverndarlöggjöf sem taka á gildi 25. maí næstkomandi. Þetta kom fram í máli ráðherra á Alþingi í dag.

Sigríður svaraði þar fyrirspurn Jóns Steindórs Valdimarssonar, þingmanns Viðreisnar, sem spurði hvernig á því stæði að ekki væri búið að leggja þetta stóra mál fram. Ráðherra benti á að um reglugerð væri að ræða sem tengist EES samningnum og að frumvarpið hafi verið aðgengilegt á samráðsgátt ráðuneytisins síðan í janúar. Jón Steindór ítrekaði að um allt of stuttan tíma væri að ræða til að fjalla um svo stórt mál og fundahlé hæfist á morgun. Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata tók undir þær áhyggjur og sagði að þetta mál yrði að fá almennilega þinglega meðferð. Fjölmargir þingmenn tóku undir þessar áhyggjur og einnig seinagang stjórnvalda við að leggja fram mál. 

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi