
Langflestir þingmenn gagnrýndu hve stuttan tíma þingið hefði haft til afgreiðslu persónuverndarfrumvarpsins. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sagðist við lok atkvæðagreiðslunnar hafa viljað að hægt hefði verið að gefa umræðu um frumvarpið lengri tíma. Tímaskortur hafi hins vegar ekki komið í veg fyrir það að nokkrar breytingartillögur hafi komið fram sem hafi verið samþykktar í mikilli sátt.
Markmið laganna er að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, eins og sjá má á vef Alþingis. Þá eigi að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga og frjálst flæði þeirra á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Persónuvernd annist eftirlit með framkvæmd reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins og taki þátt í starfsemi Evrópska persónuverndarráðsins.
Miðflokkur segir að verið sé að afsala valdi
Var það síðasta málið sem Alþingi tók til umfjöllunar í dag. Fundi var slitið laust undir klukkan eitt í kvöld en fundur hafði þá staðið meira og minna síðan hálftvö í gær. Þing kemur næst saman 17. júlí vegna hátíðarfundar á Þingvöllum þann 18. júlí í tilefni af hundrað ára afmælis fullveldis.
Miðflokkurinn sagði við aðra umræðu um persónuverndarfrumvarpið að hann væri á móti frumvarpinu í heild og formaður flokksins sagði að með því væri verið að afsala valdi. Þeir sem styðja frumvarpið segja um gríðarlega réttarbót fyrir almenning og persónuvernd að ræða. Páll Magnússon, formaður allsherjarnefndar, mælti fyrir nefndaráliti meirihlutans á Alþingi í kvöld við frumvarpið. Frumvarpið sé bylting á sviði persónuverndar og eitt stærsta stökk borgaranna á því sviði.
Ráðherra þakkaði allsherjarnefnd sérstaklega fyrir mjög gott samstarf um málið og sagði umræðu um persónuvernd fráleitt lokið með þessu frumvarpi. Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis ávarpaði síðan þingmenn og fór yfir störf þingsins og það sem framundan er.
Gagnrýna frumvarp um osta
Þá gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðu frumvarp landbúnaðarráðherra um tollalög, þar sem meirihluti atvinnuveganefndar hefur lagt fram nefndarálit þar sem hætt er við megininntak frumvarpsins um upprunatengda osta, því verði ekki um hraðari innleiðingu á tollkvótum fyrir osta að ræða heldur verði farið eftir því sem kveðið sé á um í samningi Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur. Þar er gert er ráð fyrir að viðbótarmagn dreifist á fjögur ár frá gildistöku samningsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sagði ríkisstjórnina láta í minni pokann fyrir hagsmunaöflum en stæði ekki með frelsinu. Þingmenn Sjálfstæðisflokks vísuðu þessum orðum á bug.