Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Frumvarp um að heimila línulagnir fyrir norðan

23.09.2016 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir stjórnarfrumvarpi um að heimila Landsneti að reisa og reka háspennulínu frá Kröflu að Bakka við Húsavík.

Framkvæmdir geti hafist að nýju

Landsneti er með frumvarpinu veitt heimild til að reisa og reka Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 sem kemur í stað framkvæmdaleyfa sem sveitarfélögin Norðurþing, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur hafa gefið út. Þau framkvæmdaleyfi eru nú í til umfjöllunar í úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála eftir kæru Landverndar. Á meðan hafa framkvæmdir stöðvast við línulagnir. Ragnheiður Elín Árnadóttir sagði á Alþingi í dag að verði frumvarpið að lögum muni það fyrst og fremst hafa þau áhrif að framkvæmdir geti hafist að nýju og óvissu yrði eytt um framvindu verkefnisins sem snýr að atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi. 

Leiða verður málið til lykta sem fyrst

Með frumvarpi þessu sé brugðist við þeirri stöðu sem uppi er og þeim áskorunum sem fram hafa komið, m.a. af hálfu sveitarfélaga á svæðinu. Markmið frumvarpsins sé að leysa úr þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við vegna stöðvunar framkvæmda við línulagnirnar og óvissu um það hvenær mögulegt sé að halda þeim áfram. Það séu brýnir almannahagsmunir af því að leiða þetta mál til lykta eins skjótt og verða má.  Ekki séu aðrar leiðir færar en sú lagasetning sem lögð er til í frumvarpinu. Frumvarpið fer nú til umsagnar í atvinnuveganefnd.
 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV