Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Frumvarp Sigmundar vegi að stjórnarskrá

08.05.2015 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Frumvarp forsætisráðherra um verndarsvæði í byggð vegur að ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þetta segir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi, um verndarsvæði í byggð. Markmið frumvarpsins er að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Verði frumvarpið að lögum verða sveitarfélög skylduð til að meta reglulega hvort innan þeirra sé byggð sem ástæða sé til að gera að verndarsvæði. Þá verður sú breyting á, að ákvörðun um að gera byggð að verndarsvæði verður hjá forsætisráðherra, en ekki hjá sveitarfélögum. Fjölmargar umsagnir hafa borist Alþingi vegna málsins. Reykjavíkurborg segir að um grófa aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga sé að ræða. Samband íslenskra sveitarfélaga tekur undir þetta.

„Þetta frumvarp kom okkur frekar mikið á óvart ef ég á að segja alveg eins og er. Við erum nú vön því þegar einhver svona stórmál eru að það sé leitað til okkar í upphafi og leitað álits. Það var ekki gert. Við leggjumst gegn þessu. Við teljum þetta frumvarp óþarft. Og þetta stríðir náttúrulega gegn skipulagsvaldi og sjálfsstjórnarrétti þar með sveitarfélaga að okkar mati,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frumvarpið feli í sér mikið valdaframsal til forsætisráðherra og vegi gróflega að sjálfsstjórnarréttinum.

„Bæði eins og hann er skilgreindur í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og eins og hann er skilgreindur í sáttmála Evrópuráðsins sem Ísland hefur samþykkt.“

Þannig að þið lítið jafnvel svo á að verði þetta frumvarp að lögum sé um að ræða einhvers konar stjórnarskrárbrot?

„Þetta stríðir gegn sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og geri það það er auðvitað verið að að minnsta kosti fara mjög nálægt því að brjóta ákvæði stjórnarskrár svo ég taki hófelga til orða á þessu stigi vegna þess að við eigum auðvitað eftir að taka mikla umræðu um þetta frumvarp og ég ætla svo sannarlega að vona að það náist gott samstarf milli okkar og Alþingis og þingnefnda að gera nauðsynlegar breytingar sem við teljum að verði að gera,“ segir Halldór.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV