Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Frumkvæði að nafni færist til heimamanna

19.02.2015 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Formlegt ferli um að ákveða nafn á nýja hraunið við eldstöðina í Holuhraunin er ekki hafið. Til stendur að breyta lögum um hvernig örnefni eru ákveðin þannig að sveitarfélög hafi frumkvæði þegar kemur að nafngift.

Hallgrímur J. Ámundason hjá nafnfræðisviði Árnastofnunar ræddi nafnamál nýja hraunsins í Morgunútgáfunni. Hann segir að það sé enginn beinlínis með úrskurðarvald um nafn nýja hraunsins. „Örnefnamál almennt eru hjá nafnfræðisviði Árnastofnunar og eins hjá örnefnanefnd. Við vinnum síðan náið saman með Landmælingum Íslands að ákveða hvað fer á landakort á endanum.“

Hann segir Holuhraun vera það heiti sem flestir noti þó fleiri hafi verið nefnd, svo sem Dyngjuhraun, Nornahraun og Flæðahraun. Holuhraun sé eina nafnið sem til hafi verið fyrir, um hraun sem rann á þessum slóðum áður.

Menntamálaráðherra skipaði starfshóp til að ákveða nafn þegar gaus á Fimmvörðuhálsi og hafði sá hópur samráð við heimamenn og jarðfræðinga. Slíkur hópur hefur ekki verið settur á fót núna, meðal annars vegna þess að fyrir Alþingi liggur frumvarp um breytingar á lögunum. Samkvæmt því ætti viðkomandi sveitarfélag að eiga frumkvæði að nafngift og hefði þá nefnd til ráðgjafar.

Hallgrímur segir nafnaleitina ekki formlega hafna. „Við fylgjumst með málinu á nafnfræðisviði Árnastofnunar, skráum hjá okkur tillögur og verðum með það tilbúið ef á þarf að halda.“