Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Frosti: Sigmundur sagði ósatt

10.04.2016 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og þingmaður Framsóknar, segir að trúnaðarbrestur hafi orðið þegar fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði ósátt í viðtali við sænska sjónvarpið. Það sé ekki boðlegt frekar en að leyna hagsmunum tengdra aðila.

Atburðarásin í íslenskum stjórnmálum hefur verið hröð eftir að Kastljós sýndu viðtal Sven Bergmans og Jóhannesar Kr. Kristjánssonar við Sigmund Davíð fyrir viku síðan. Þar var forsætisráðherrann fyrrverandi spurður út í tengsl sín við aflandsfélagið Wintris.

„Forsætisráðherrann sagði ósatt og það í rauninni er slæmt því allt sem í framhaldi kemur er dregið í efa. Og ég held að þar hafi orðið trúnaðarbrestur, að forsætisráðherra treysti sér ekki til að segja satt á því augnabliki, þegar hann er bara spurður hreint út. Ég held að þar hljóti lexían að vera sú að það er enginn valkostur að segja ósatt um svona hluti. Það er enginn valkostur að leyna hagsmunum tengds aðila í svona stóru máli,“ sagði Frosti í Helgarútgáfunni.

Hann segist ekki efast um að skattar hafi verið greiddir af félaginu og að Sigmundur hafi ætið barist fyrir hagsmunum Íslands af heilum hug. „En mér finnst samt sem áður, að leyna þessu, orkar mjög tvímælis vegna þess að þá getur hann ekki svarað svona spurningu, eða honum vefst tunga um tönn og þá er traustið farið.“

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar hefur sagt að Sigmundur hefði einnig átt að segja af sér sem þingmaður og láta örlög sín svo sem formaður ráðast í höndum flokksmanna. Frosti bendir á að Sigmundur ætli nú í frí og að varaþingmaður taki hans sæti. „Ég er sammála Höskuldi að því leiti að það er mjög erfitt að vera formaður og þingmaður og liggja stöðugt undir ámæli. Að það sé eitthvað vantraust í gangi úti í samfélaginu, gerir það erfiðara að skýra mál sitt og fá sanngjarna umfjöllun.“

Frosti segir að tafarlaust þurfi að fara fram rannsókn af hálfu hins opinbera á tengslum Íslendinga við aflandsfélög. Umfangið sé slíkt.