Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Frosin ber enn til rannsóknar

12.05.2013 - 18:41
Mynd með færslu
 Mynd:
Enn er varhugavert að neyta frosinna berja. Matvælafræðingur Matvælastofnunar varar við berjunum og segir að bíða þurfi niðurstaðna rannsókna.

Þangað til liggi allir framleiðendur frosinna berja undir grun eftir að danskir vísindamenn komust að því að fólk hafði smitast af lifrarbólgu A eftir að hafa neytt frosinna berja.

Pokar með frosnum berjum hreyfast ekki í frystikistum stórmarkaðanna. Sala þeirra hefur nánast stöðvast eftir að fréttir voru sagðar af því að tengja mætti neyslu þeirra við lifrarbólgu A. Unnendur heilsubústdrykkja klóra sér í kollinum. Það er því mikið í húfi fyrir framleiðendur berjanna að niðurstaða liggi fyrir sem fyrst. Þangað til er ekki öruggt að neyta frosinna berja nema að sjóða þau fyrst.

Herdís  M. Guðjónsdóttir, matvælafræðingur hjá Matvælastofnun, segir: „Það hefur ekki verið unnt að sýna fram á neina sérstaka tegund af frosnum berjum eða frá einhverju landi. Það er mjög erfitt að greina þetta því að það þarf mjög fáar veirur til að veikja fólk, en það þarf mikið magn til að greina það".

Matvælastofnun fylgist reglulega með rannsóknarteymum Norðurlandanna sem reyna nú að komast til botns í málinu. Herdís segir að ekki sé búið að finna orsakavaldinn og brýnir fyrir veitingaleyfishöfum að sjóða berin þar til óvissunni hefur verið aflétt.

„Það verður bara að vera á ábyrgð fyrirtækjanna. Þau vita um þessa hættu. Og svo er heilbrigðiseftirlitið auðvitað með eftirlit á markaði, en þeir geta auðvitað ekki staðið yfir fólki meðan það sýður berin".