Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Frjálslyndir vilja fé frá borginni

19.01.2012 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Frjálslyndi flokkurinn vill að Reykjavíkurborg greiði flokknum rúmar þrjár milljónir króna sem hann hafi átt að fá í styrk árið 2008. Borgin greiddi hins vegar styrkinn til félags sem þáverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, stofnaði sjálfur.

Mál Frjálslynda flokksins gegn borginni var flutt í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Flokkurinn fékk lögbundna styrki frá borginni, á meðan hann átti fulltrúa í borgarstjórn - en árið 2008 lét þáverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, sem var oddviti flokksins - greiða þessa peninga inn á reikning Borgarmálafélags F listans - það félag átti sama lögheimili og Ólafur. Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður bar vitni fyrir dómi í morgun. Hann er nú formaður fjármálaráðs flokksins. Guðjón Arnar segir Ólaf hafa setið beggja megin borðs, bæði verið borgarstjóri og oddviti listans og þar með stýrt því að þessir fjármunir fóru í annan veg en ætlað var. Þeir hafi runnið í nýstofnað félag sem Ólafur stofnaði sjálfur á sínu lögheimili.

Við það er Frjálslyndi flokkurinn ekki sáttur segir Guðjón Arnar - enda  í kröggum og þarf að borga skuldir. Frjálslyndi flokkurinn, skuldsetti sig fyrir borgarstjórnarkosningar 2006 og eyddi í þær um 14 milljónum og meiru í kosningar sem á efti fóru. Flokksmenn hafi átt í miklu basli við að halda flokknum á lífi.