Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Fríverslunarviðræður EFTA við Rússa á ís

23.06.2014 - 20:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Utanríkisráðherra segir að EFTA-ríkin hafi slegið á frest samningaviðræðum um fríverslun við Rússa vegna deilna þeirra við Úkraínumenn. Hann vonar að hægt verði að taka viðræðurnar upp að nýju með batnandi samskiptum ríkjanna tveggja.

EFTA fundur í Eyjum
Sumarfundur ráðherra EFTA-ríkjanna fer fram í Vestmannaeyjum og lýkur honum á morgun. Fundinn sitja ráðherrar og embættismenn Íslands, Liechtentstein, Noregs og Sviss. Ráðherrar EFTA-ríkjanna fjögurra undirrituðu í dag ásamt viðskiptaráðherra Filippseyja viljayfirlýsingu um fríverslunarsamning EFTA við Filippseyjar.

Fríverslunarnet EFTA til umræðu
Í dag eru fríverslunarsamningarnir 70 talsins og er umfjöllunarefni fundarins þróun fríverslunarnetsins. EFTA-ríkin eiga meðal annars í viðræðum við Indland og Víetnam. Hins vegar liggja samningaviðræður við nokkur ríki niðri, meðal annars Taíland þar sem her landsins hefur tekið völdin.

Viðræðum við Rússa hætt
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að viðræðum hafi einnig verið hætt við svokölluð Rúbeka lönd; Rússland, Kasakstan og Hvíta-Rússland vegna ástandsins í Úkraínu. „Öllum fundum er í rauninni slegið á frest eða hætt við þá. En við vonum að sjálfsögðu að það verði hægt að taka það upp að nýju þegar málin hafa þróast í rétta átt þegar kemur að viðskiptum Rússa og Úkraínumanna,“ segir Gunnar Bragi.