Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Frítt heilbrigðiskerfi kostar 6,5 milljarða

26.04.2016 - 22:18
Computer treatment
 Mynd: - - torange.us
Með því að bæta tveimur til þremur milljörðum í heilbrigðiskerfið væri hægt að hafa það frítt, segir heilsuhagfræðingur. Hann segir nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga geta leitt til þess að lífeyrisþegar greiði hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum sínum til þessara mála en aðrir.

Frumvarp um breytingar á greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er til afgreiðslu á Alþinig. Meginbreytingin er að draga úr útgjöldum þeirra sem nota heilbrigðiskerfið mikið, en auka um leið kostnað þeirra sem notað það lítið. Öryrkjabandalagið fjallaði um málið  í dag og í sjöfréttum gagnrýndi formaður bandalagsins stjórnvöld fyrir samráðsleysi. Í dag var gefin út skýrsla Öryrkjabandalagsins með tillögum þess, en Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur kom að gerð hennar. Hann segir að með nýja kerfinu greiði lífeyrisþegar hlutfallslega meira af ráðstöfunartekjum sínum en aðrir.

„Bara einfaldur útreikningur á meðallaunum og lífeyrisbótum leiddi í ljós að almenningur væri að greiða rétt undir 3% af sínum ráðstöfunartekjum í heilbrigðiskostnað ef þetta kerfi gengur eftir, en lífeyrisþegar gætu staðið frammi fyrir því að borga allt að 4,2% af sínum ráðstöfunartekjum,“ segir Gunnar

Kerfið er millifærslukerfi, ekki er verið að bæta í það heldur breyta því innbyrðis. Gunnar segir að ekki þurfi að auka útgjöld til þess að gera mikið, svo kerfið verði gjaldfrjálst.

„Svo virðist vera að ef við gerum þetta kerfi algjörlega gjaldfrjálst, þessa tegund heilbrigðisþjónustunnar, þá mun það kosta um 6,5 milljarða. Ég hélt að sú tala væri hærri, ég hélt að sú tala væri vel yfir 10 milljarða, en gott og vel, 6,5 milljarðar kom mér gríðarlega á óvart. Sem segir mér að jafnvel með örfáum milljörðum 2-3 milljörðum í viðbót, þá væri hægt að lækka hámarksþökin töluvert, öllum til góða,“ segir Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur.

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV