Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Fríðindi eigi að koma í hlut ríkisins

18.03.2015 - 10:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðuneytið tilkynnti á dögunum að flugmiðakaup ríkisins yrðu boðin út á fyrri hluta árs.

Útboð á farmiðum fór síðast fram árið 2011. Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að hlé hafi verið gert á útboðum á meðan ESA hafði útboðsferli til athugunar eftir kvörtun Iceland Express. Kvörtunin var til meðferðar hjá ESA í tæp tvö ár. 

Farmiðakaup ríkisins hafa verið gagnrýnd, meðal annars af Samkeppniseftirlitinu og Ríkisendurskoðun. Kastljós greindi frá því í síðustu viku að íslenska ríkið hefði keypt farmiða frá Icelandair fyrir hátt í tvo milljarða króna frá árinu 2009, en miða frá öðrum félögum fyrir einungis brot af þeirri upphæð. Viðskiptin hafa ekki verið boðin út frá 2011. 

Bent hefur verið á að vildarpunktar til handhafa flugmiða feli í sér hvata til að kaupa frekar ferðir af Icelandair, þó að þær séu dýrari. Halldór Ó. Sigurðsson, forstjóri Ríkiskaupa, segir að við undirbúning útboðsins verði horft til nágrannalanda okkar með framkvæmdina. Hann gat að öðru leyti ekki tjáð sig að svo stöddu. Félag atvinnurekenda hefur gagnrýnt núverandi fyrirkomulag.

„Þetta segir sig í rauninni sjálft, það er algjörlega galið að ríkisstarfsmenn séu að fara í sumarfrí fyrir vildarpunkta sem þeir söfnuðu sér í krafti peninga skattgreiðenda,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. „Sá afsláttur, þau fríðindi, eiga þá að koma í hlut ríkisins og nýtast til hagræðis fyrir skattgreiðendur. Það á ekki að vera neitt flókið, ríkið bara sem stór kaupandi afþakkar vildarpunkta í þessum viðskiptum og segir sem svo, ef þið viljið veita fríðindi þá koma þau í okkar hlut en ekki starfsmannanna.“

Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að í útboðinu verði eftir sem áður haft að leiðarljósi að einkahagsmunir starfsmanns, sem ferðast hverju sinni, ráði ekki vali á flugfélagi. 

Ólafur fagnar útboðinu, en segir að reynslan sýni að setja þurfi skýrar reglur. Ekki nægi að höfða til siðferðiskenndar starfsmanna. „Það bara dugir ekki til, það þarf bara að kveða skýrt á um söfnun vildarpunkta í siðareglum starfsmanna ríkisins. Dæmin sýna alveg að það er nauðsynlegt.“

Fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu vegna fréttarinnar. Þar segir að hvað fyrirhugað útboð snerti hafi verið til skoðunar hvaða form væri heppilegast til að tryggja sem best kjör og þar með hag ríkissjóðs.  „Niðurstaðan er að skoða annað útboðsform en rammasamning. Það skýrir að í auglýsingu á rammasamningsútboði Ríkiskaupa sem var birt 28. febrúar voru farmiðakaup ekki á lista. Um þessar mundir vinna Ríkiskaup að undirbúningi almenns útboð á tilteknum flugleiðum“.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV