Friðarviðræður í Svíþjóð í desember

22.11.2018 - 05:08
Erlent · Asía · Jemen
epa07143258 Yemeni government forces take part in military operations on Houthi positions in the port city of Hodeidah, Yemen, 05 November 2018. According to reports, more than 50 Houthi rebels and 17 Yemeni government loyalists were killed in clashes
Hermenn stjórnarliða nærri Hodeida. Mynd: EPA-EFE - EPA
Friðarviðræður á milli Húta og jemenskra stjórnvalda hefjast í Svíþjóð snemma í næsta mánuði. Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandraíkjanna, greindi frá þessu í gær. Hann segir Sádi Arabíu og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin styðja viðræðurnar, en ríkin hafa stutt stjórn forsetans Abedrabbo Mansour Hadi, í stríðinu gegn uppreisnarsveit Húta í Jemen undanfarin þrjú ár.

Það kom nokkuð á óvart þegar Mattis hvatti til vopnahlés í Jemen í síðasta mánuði. Hann kallaði jafnframt eftir því að stríðandi fylkingar kæmu að samningaborðinu innan næstu 30 daga, en Sameinuðu þjóðirnar lengdu samningafrestinn til áramóta. Martin Griffiths, erindreki Sameinuðu þjóðanna í Jemen, sótti Sanaa heim í gær þar sem hann ræddi við forystumenn Húta. Þar hvatti hann þá til þess að mæta stjórn Hadis við samningaborðið og binda endi á borgarastríðið. Stríðið í Jemen hefur valdið því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa kallað verstu mannúaðaraðstæður heimsins. Allt að 14 milljónir eiga á hættu að verða hungursneyð að bráð í landinu ef bardagar verða til þess að höfnin í Hodeida lokast af.

AFP fréttastofan hefur eftir Heather Nauert, talskonu bandaríska utanríkisráðuneytisins, að stríðandi fylkingar geti ekki beðið lengur með viðræður. Hún sagði höfnina í Hodeida verða að komast í hendur hlutlauss aðila svo hægt sé að koma mannúðaraðstoð til landsins, og í veg fyrir að hún verði notuð til þess að smygla vopnum þangað.

Nærri tíu þúsund almennir borgarar hafa fallið í átökunum í Jemen, og milljónir glíma við hungursneyð.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi