Freydís endaði í 41. sæti - Gullið til Svía

Mynd: EPA-EFE / EPA

Freydís endaði í 41. sæti - Gullið til Svía

16.02.2018 - 05:33
Freydís Halla Einarsdóttir endaði nú í morgun í 41. sæti í svigkeppni kvenna á Ólympíuleikunum í PyeongChang í Suður-Kóreu. Freydís sem var með rásnúmer 48 en endaði sjö sætum ofar. Hún fór fyrri ferðina á 56,49 sek. og var í 46. sæti fyrir seinni ferð. Tími hennar ís einni ferðinni var svo 56,66 sek. og samanlagður tími hennar, 1:53,15 mín. skilaði henni 41. sæti.

Freydís endaði 14,52 sek. á eftir sigurvegaranum, Fridu Hansdotter frá Svíþjóð. Sú sænska var í 2. sæti eftir fyrri ferðina og náði líka næstbesta tímanum í seinni ferð sem tryggði henni gullið. Þetta eru fyrstu verðlaun Fridu Hansdotter á Ólympíuleikum.

Wendy Holdener frá Sviss varð önnur, fimm hundruðustu úr sekúndu á eftir samanlögðum tíma Hansdotter og Katharina Gallhuber frá Austurríki vann bronsverðlaunin frekar óvænt.

Freydís Halla hefur nú lokið keppni á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Hún náði ekki að ljúka keppni í stórsviginu í gær, en 41. sæti í sviginu er nú staðreynd.