Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fresta umræðu um sölu á Laugum

28.05.2018 - 17:25
Laugar í Dölum, Sæljngsdalur
 Mynd: lonelyplanet.com - Lonely Planet
Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti á fundi sínum 24. maí síðastliðinn að fresta umræðu um sölu á Laugum. Nokkur ólga hafði verið í bæjarfélaginu vegna sölunnar þar sem til greina kom að sveitarfélagið myndi lána kaupandanum fyrir tæpum helmingi kaupverðsins.

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, fyrsti varamaður í sveitarstjórn Dalabyggðar, sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að hann væri mjög mótfallinn því að sveitarfélagið væri að lána pening með þessum hætti. Á fundinum á fimmtudag afhenti hann oddvita sveitarfélagsins undirskriftir 213 íbúa þar sem sölunni á Laugum er mótmælt. Íbúar í sveitarfélaginu voru 667 í byrjun þessa árs. Í ályktun með undirskriftunum segir að þau sem skrifuðu undir vilji að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um málið. „Við erum á móti því að Dalabyggð veiti seljendalán,“ segir í ályktuninni. 

Þegar Laugar og jörðin Sælingsdalstunga voru auglýstar til sölu kom eina tilboðið frá Arnarlóni. Upphaflega tilboðið hljóðaði upp á 460 milljónir og að sveitarfélagið myndi lána fyrir hluta greiðslunnar. Samkvæmt því tilboði áttu skuldabréf Dalabyggðar að vera á þriðja veðrétti. Sveitarstjórnin setti aftur á móti þau skilyrði að þau yrðu á fyrsta og öðrum veðrétti. Viðræðum var slitið 18. apríl vegna ágreinings um veðréttinn. Í maí barst svo annað tilboð frá Arnarlóni sem fól í sér að jörðin Sælingsdalstunga væri undanskilin og að kaupverðið lækki sem henni nemur og verði 405 milljónir króna. Fyrirtækið fái aftur á móti kauprétt á þeim hluta Sælingsdalstungu sem ætlað er fyrir frístundabyggð og golfvöll. Í nýja tilboðinu eru skuldabréf Dalabyggðar á öðrum veðrétti. 

Sveitarstjórnin samþykkti samhljóða á fundi sínum á fimmtudag að fresta umræðu um tilboð Arnarlóns. Í fundargerð kemur fram að tillaga Arnarlóns sé ágætlega til þess fallin að ljúka sölunni. „Í ljósi umræðu í samfélaginu og á samfélagsmiðlum og nýfenginna undirskrifa er hins vegar lagt til að málinu verði vísað til afgreiðslu nýrrar sveitarstjórnar sem tekur við stjórn sveitarfélagsins þann 10. júní næstkomandi,“ segir í tillögu sveitarstjórnar sem var samþykkt samhljóða.