Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fresta umræðu um orkupakkann vegna athugasemda

15.11.2018 - 22:20
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Utanríkisráðherra segir að ríkisstjórnin ætli að fresta því að leggja fram frumvarp um þriðja orkupakkann fram á vor, vegna gagnrýnisradda. Hann segir að á meðan fari sérfræðingar yfir málið. Ekki sé farið að hugsa til þess hvað gerist ef orkupakkinn verður ekki samþykktur á Alþingi.

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins, sem lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins, hefur verið umdeildur. Samkvæmt honum á sameiginleg orkustofnun að fylgjast með orkumarkaðinum og taka á ágreiningi, komi hann upp.

Ljóst er að ekki ríkir pólitísk samstaða um hvort innleiða eigi pakkann. Framsóknarflokkurinn í Reykjavík og Suð-vesturkjördæmi hafa sagst hafna honum.  Þá er ekki eining um málið innan Sjálfstæðisflokksins en tveir ráðherrar flokksins eru með málið á sinni könnu.

„Það sem við gerðum í ríkisstjórninni var þetta, vegna þess að það komu fram ýmsar athugasemdir þá ákváðum við að fresta því að koma fram með málið. Og höfum fengið til vinnu færustu sérfræðinga meðal annars þá sem hafa haft málefnalegar athugasemdir við málið. Og þannig stendur málið núna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.

Samþykki Alþingi ekki frumvarp um innleiðingu orkupakkans gæti það sett EES-samninginn, sem Ísland er aðili að, í uppnám. Guðlaugur vill fyrst og fremst gæta hagsmuna Íslands í því samstarfi. Hann segir að umræðan um orkupakkann hafi litast af rangfærslum en að ríkisstjórnin sé samstíga.

Hvað gerist ef þetta verður ekki samþykkt? „Við erum ekki komin á neinn slíkan stað. Við erum á þeim stað að við erum að vinna undirbúningsvinnu. Og við þurfum að taka umræðu sem hefur kannski farið svolítið undir radar sem snýr að ýmsum gagnrýnisþáttum þegar kemur að hagsmunagæslu okkar í EES-samningum,“ bætir Guðlaugur Þór við.