Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fresta framkvæmdum á Ófeigsfjarðarvegi

09.09.2019 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Vesturverk hefur lokið störfum við framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi í bili. Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi Vesturverks, segir það í samræmi við það sem lagt hafi verið upp með, að unnið yrði inn í haustið eins og hægt væri. Nú væri of blautt til að hægt væri að halda framkvæmdum áfram. Áætlað er að framkvæmdir hefjist að nýju með vorinu.

Fram undan er umfangsmikil vegagerð vegna Hvalárvirkjunar. Styrkja á vegakerfið á svæðinu svo Ófeigsfjarðarvegur þoli þungaflutninga vegna framkvæmdanna.  Vegagerðin framseldi umsjón vegarins til Vesturverks. Hluti landeigenda að Seljanesi hefur mótmælt framsalinu. Vegagerðin telur sig aftur á móti hafa fullt forræði yfir þjóðvegum samkvæmt vegalögum og hafi því verið heimilt að framselja umsjón vegarins.

Birna segir að framkvæmdirnar hafi einungis verið stöðvaðar tímabundið. Þær hefjist að nýju þegar veður, færð og aðstæður leyfi fyrir norðan. Ómögulegt sé að segja hvenær það nákvæmlega verði. 

Þá segir Birna að framkvæmdirnar gangi samkvæmt áætlun. Vesturverk hafi lokið því sem þau ætluðu að lágmarki að ná að klára fyrir veturinn og allt hafi gengið að óskum.