Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Frekari sameining sveitarfélaga á NV-landi

Mynd með færslu
 Mynd:
Allnokkur skriður virðist kominn á hugmyndir um frekari sameiningu sveitarfélaga í Húnavatnssýslum. Bæjarráð Blönduósbæjar hyggst leita eftir aðkomu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu að viðræðum um sameiningu.

Undanfarið hafa bæjarstjórn Blönduósbæjar og hreppsnefnd Húnavatnshrepps átt í samskiptum um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Í bréfaskriftum þeirra á milli hefur hugmyndin undið upp á sig og eins og fram hefur komið er að það álit Húnavatnshrepps að frekar eigi að skoða sameiningu allra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. 

Undir þetta hefur bæjarráð Blönduósbæjar nú tekið með formlegum hætti. Það samþykkti á síðasta fundi sínum að leita eftir stuðningi og aðkomu annarra sveitarfélaga í sýslunni að viðræðum um sameiningu. 

Þóra Sverrisdóttir, oddviti Húnavatnshrepps, vill jafnvel ganga enn lengra. Hún sagðist í fréttum RÚV vilja skoða sameiningu allra sveitarfélaga í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum. 

Í austursýslunni eru fjögur sveitarfélög; Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd. Vestur Húnavatnssýsla er eitt sveitarfélag; Húnaþing vestra, sem reyndar teygir sig yfir í Strandasýslu eftir sameiningu við Bæjarhrepp í lok árs 2011.