Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frekar byggðastuðning en framleiðslustuðning

23.08.2017 - 18:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Bjartrar framtíðar leggur áherslu á að búvörusamningurinn verði endurskoðaður, en segir að bregðast verði við stöðunni hjá sauðfjárbændum.

 

Stjórnvöld fjalla nú um vanda sauðfjárbænda, en afurðarstöðvar hafa boðað verðlækkun og erlendir markaðir hafa lokast. Formenn tveggja stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar hafa lagt áherslu á að reynt verði að koma í veg fyrir að vandamál á borð við þetta komi upp á hverju hausti. Þriðji stjórnarflokkurinn greiddi atkvæði gegn búvörusamningnum á Alþingi síðasta haust.

„Ég held að það sé nú mikilvægt að við bregðumst við þessari stöðu, en eins og við höfum sagt þá finnst okkur mjög mikilvægt að búvörusamningurinn sé endurskoðaður, að við skoðum ennþá stuðning okkar við byggð í landinu og landbúnaðinn. Við horfum meira beint á byggðastuðning frekar en framleiðslustuðning og að við tökum inn líka sterkar umhverfisvinkilinn,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar.  Núverandi kerfi ýti undir offramleiðslu sem sé vont fyrir markað og verð, en einnig óumhverfisvænt og því þurfi að breyta. 

En munið þið sætta ykkur við einhver hundruð milljóna til viðbótar inn í þennan samning núna?
„Við þurfum bara að skoða þessa stöðu og sjá hvað er á borðinu.“

Formenn allra ríkisstjórnarflokkanna hafa kallað eftir framtíðarlausn á þessu máli.

„Það náttúrlega er hluti af samningnum að hann verður endurskoðaður og við höfum talað fyrir því að flýta þeirri endurskoðun, en samningurinn var gerður og hann var samþykktir þó svo að Björt framtíð hafi staðið á mótin honum fyrir ári. Þannig að það þarf að gerast í samvinnu við bændur og við iðnaðinn,“ segir Óttarr Proppé.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV