Freestyle-keppnin rís upp úr öskustónni

Mynd: RÚV / RÚV

Freestyle-keppnin rís upp úr öskustónni

02.02.2017 - 17:26

Höfundar

Þrettán hópar eru skráðir til leiks í Danskeppni Samfés sem verður haldin í fyrsta sinn á föstudag í Félagsheimilinu á Seltjarnarnesi. Þetta er arftaki hinnar fornfrægu Freestyle-keppni í Tónabæ, þar sem margir listamenn stigu sín fyrstu skref. Þá stendur til að gera leikna sjónvarpsþætti, sem gerast á blómatíma keppninnar.

Fer aftur í tímann þegar hún sér krakkana í Samfés

Freestyle-keppnin í Tónabæ var einn af hápunktum unglingamenningar hér á landi. Blómatími hennar var frá miðjum níunda áratugnum og fram á þann tíunda. Elma Lísa Gunnarsdóttir leikkona sigraði margoft í keppninni á sínum tíma, bæði í einstaklings- og hópdansi.

„Þetta var ótrúlega gaman og við lögðum allt í þetta,“ rifjar Elma Lísa upp. „Við æfðum á hverjum degi og mjög stíft.“ Velgengni í Freestyle-keppninni gat verið ávísun á fleiri verkefni. „Við vorum að „gigga“ út um allan bæ, það var mjög mikið að gera eftir að við unnum keppnina. Þetta var algjörlega líf mitt og yndi að dansa og ég myndi segja að þetta hafi haft mjög góð áhrif á mig. En Freestyle-ið er að koma mjög sterkt inn aftur. Ég var að horfa á krakkana æfa áðan og fór alveg aftur tímann.“

Tónabær var samfélagsmiðill síns tíma

Auk þess að Freestyle-keppnin hefur verið endurvakin undirbýr framleiðslufyrirtækið Pegasus í samstarfi við RÚV sjónvarpsþætti sem gerast á gullöld keppninnar á níunda áratugnum.

„Þetta fjallar um tvær unglingsstelpur árið 1986 og hverfist aðallega um Freestyle-keppnina í Tónabæ,“ útskýrir Kristófer Dignus, sem fer fyrir handritshöfundateymi þáttanna. „Þarna voru engir snjallsímar, samfélagsmiðlar voru ekki komnir og maður þurfti raunverulega að fara og finna félagana. Þess vegna var Freestyle-keppnin svo frábært fyrirbæri, hún var Tinder, Snapchat og Facebook síns tíma.“

Rætt var við keppendur í Danskeppni Samfés og fleiri í Menningunni í Kastljósi og má sjá innslagið hér að ofan.