Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fráveita og leikskóli þrætuepli á Héraði

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Fjölmenni var framboðsfundi á Egilsstöðum í gærkvöld þar sem fjögur framboð til sveitarstjórnarkosninga kynntu áherslumál sín. Tekist var á um fráveitumál og hvernig ætti að fjölga leikskólaplássum í sveitarfélaginu.

Miðflokkurinn vill skoða að byggja leikskóla við Fellaskóla

Fráfarandi bæjarstjórn hafði ákveðið að stækka leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ aðeins um eina deild en ekki tvær eins og upphaflega stóð til. Miðflokkurinn vill kanna þá leið að leikskólinn verði á skólalóð Fellaskóla. „Við teljum í raun og veru að engum sé greiði gerður með að byggja leikskólann þannig að hann verði í klemmu út frá plássi. Við teljum miklu betri leið að skoða byggingu við Fellaskóla með tengingu og samnýtingu á ýmsum stoðrýmum þar. Það er framtíðarlausn. Við viljum sjá að það verði byggður upp fjögurra deilda leikskóli þar,“ sagði Gunnar Þór Sigbjörnsson en hann skipar 4. sæti á lista Miðflokksins á Fljótsdalshéraði.

Stefna flokksins er á skjön við ákvarðanir sem meirihluti Héraðslista, Sjálfstæðisflokks og Á-lista tók rétt fyrir kosningar um að stækka leikskólann Hádegishöfða í Fellabæ um eina deild en ekki tvær, gera hann að þriggja deilda leikskóla fyrir 60 börn en ekki fjögurra deilda fyrir um 80 börn. Fram hefur komið í fréttum RÚV að nú sé miðað við að 30 leikskólapláss þurfi til að anna núverandi þörf í Fellabæ. Næst yrði svo byggður nýr leikskóli hinum megin við Lagarfljót, á Egilsstöðum, þar sem þörfin er meiri.

Krafa um að fækka börnum á deildum muni aukast

Fram kom í máli Gunnhildar Ingvarsdóttur, sem skipar 2. sæti á lista Framsóknar sagði að stækkunin í Fellabæ hefði átt að vera fyrr á ferðinni. „Þannig að staðan er þannig núna að við erum komin í plássleysi,“ sagði hún og sagði einnig mikilvægt að viðbygging í Fellabæ yrði ekki höfð of lítil. Framsókn fékk mest fylgi í síðustu kosningum en hefur setið í minnihluta. Eitt af loforðum Framsóknar nú er að börn verði tekin inn á leikskóla tvisvar á ári. Á fundinum var spurt í hvernig það ætti að vera framkvæmanlegt þegar öll pláss væru nýtt. Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknar, sagði að það yrði hægt þegar plássið væri orðið nægjanlegt. „Það þarf meira rými og þess vegna höfum við lagt áherslu á það að stækka í Hádegishöfða sem allra fyrst og hefja strax undirbúning að því að byggja nýjan leikskóla. Vegna þess að við þurfum þetta rými og krafan um það að fækka börnum á deildum og annað, hún kemur bara til með að aukast. Þannig að við þurfum að takast á við þetta,“ sagði Stefán Bogi.

Nýr leikskóli áformaður á Suðursvæði

Gunnar Jónsson sem skipar annað sæti á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra sagði að til stæði að nýr leikskóli yrði á svokölluðu Suðursvæði á Egilsstöðum innan við Mjólkurstöðina en þar er skipulögð 1500 manna byggð. Ef nýr leikskóli verður byggður gæti komið til þess að leikskóladeildir í Tjarnarlöndum verði aflagðar. Það húsnæði er komið til ára sinna og hentar til dæmis ekki fjölfötluðum börnum. Steinar Ingi Þorsteinsson, oddviti Héraðslistans, sagði að nýr leikskóli myndi uppfylla allar kröfur. „Það er náttúrlega brýn nauðsyn að byggja leikskóla og sá skóli þarf að vera með allar nútímalegar þarfir fyrir börnin í fyrirrúmi þannig að hann sé rúmgóður og henti öllum börnum.“

„Kjallarahola“ á Vonarlandi boðleg í eitt ár

Vegna skorts á leikskólaplássi á Fljótsdalshéraði er nú til skoðunar að koma eins árs börnum fyrir í kjallara á Vonarlandi til bráðabirgða. Fyrirspyrjanda á fundum leist ekki á það húsnæði og kallaði það kjallaraholu. Gunnar Sigbjörnsson frá Miðflokknum sagðist vilja að önnur leið yrði skoðuð; að nýta frekar húsnæði Hitaveitu Egilsstaða og Fella í gamla ráðhúsinu í Fellabæ. „Það er miklu betri leið að setja okkar yngstu íbúa í vistun þar, heldur en niður í þennan kjallara. Svo ég tali nú ekki um aðstöðu fyrir starfsmenn. Ef þetta ílengist og menn átta sig á því að plástralausnin við Hádegishöfða sé ekki gáfuleg þá er betra að þessi bráðabirgðalausn sé aðeins betri,“ sagði Gunnar.

Gunnar Jónsson frá Sjálfstæðisflokki og óháðum sagði að úttekt á kjallaranum á Vonarlandi hefði farið fram án athugasemda. Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði nauðsynlegt að bregðast skjótt við, því 10 fjölskyldur með jafn mörg börn hefðu flutt í bæinn á skömmum tíma. „Það munar um það, umfram það sem var á listanum og það er bara mjög gleðilegt. Það var búið að skoða ýmiss konar húsnæði og ég treysti leikskólastjórum og starfsmönnum, heilbrigðiseftirliti og vinnueftirliti bara mjög vel til þess að meta hvort húsnæðið sé ásættanlegt og í boði. Við erum að tala um eitt ár og þarna ætla menn virkilega að vanda sig með leiktækjum inni og úti,“ sagði Anna.

Hart deilt um fráveitumál

Annað átakamál á Fljótsdalshéraði snýst um fráveitumál. Þau eru í ólestri því þrjú fullkomin hreinsivirki við Eyvindará ráða ekki við það vatnsmagn sem fer í gegnum þau. Vandamálið er að regnvatn og hitaveituvatn fara saman við skólpið því fráveitan er ekki tvöföld. Fyrir vikið yfirfyllast hreinsivirkin og fer skólp óhreinsað fram hjá þeim um yfirfall. Þá fer skólp einnig óhreinsað beint í ána á einum stað og rotþró við Lagarfljót í Egilsstaðavík ræður ekki við það magn sem þar fer í gegn.

Gagnrýndi lítið samráð við íbúa áður en ákvörðun var tekin um fráveitu

Á síðasta kjörtímabili ákvað stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella sem er í eigu Fljótsdalshéraðs og fer með fráveitumálin að úrelda hreinsivikin sem eru þriggja þrepa og byggja í staðinn eitt stórt eins þreps hreinsivirki við Melshorn með möguleika á þrepi númer tvö. Sem sagt að hreinsa allt skólp, en ekki eins vel og áður. Gunnar Þór Sigbjörnsson frá Miðflokknum gagnrýndi flokkana sem hafa verið við völd harðlega fyrir að upplýsa íbúana seint um málið. „Eini opinberi fundurinn með íbúum var hér niðri á Hótel Héraði en það var ekki umræðufundur. Það var verið að segja frá því hvernig væri búið að ákveða að gera þetta. Ef við ætlum að fara að hringla í fráveitumálum á 10 ára fresti þá held ég að það verði orðið ansi dýrt. Það var tekin stefna á sínum tíma að fara í það að vera með þriggja þrepa hreinsun á fráveitunni. Þessi aðgerð er ekki búin. Menn hafa gagnrýnt þetta, eðlilega, þetta er ekki búið. Það á eftir að tvöfalda kerfið í bænum þannig að þessi hreinsivirki geti farið að hreinsa skólp en ekki annað. […] Við segjum í Miðflokknum: Við verðum að vanda okkur vel í þessu. Við þurfum að hafa allar upplýsingar uppi á borðum. Og við þurfum að gefa öllum þeim kostum sem við getum hugsanlega verið að skoða í þessu vægi og tækifæri til að fara inn í umræðuna. Það gengur ekki að við séum eingöngu að skoða einn kost og loka á annað, án þess í raun og veru að skoða það til enda,“ sagði Gunnar. Á oddvitafundi á Rás tvö 17. maí sagði Gunnar að Miðflokkurinn vildi að sú leið verði skoðuð ofan í kjölinn að nota hreinsivirkin áfram og leiða frá þeim í annað hreinsivirki úti á Melshorni. Ekki verði tekin afstaða fyrr en báðir kostir hafi verið skoðaðir.

„Þrotlaus sóðaskapur“

Gunnar Jónsson sem áður leiddi Á-lista en situr nú í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks og óháðra sagði að sér fyndist hart að heyra að það hafi ekki verið haft samráð um málið. „Það er búið að kanna þessi mál af hönd hitaveitunnar í fleiri ár og það er komin ákveðin lausn sem við ætlum að fara í. Stefnan er með þessu að stoppa þann þrotlausa sóðaskap sem fráveitumál okkar eru í dag, vegna þess að 70% af öllu fráveituvatni fer nánast óhreinsað bæði í Eyvindarána og í Lagarfljótið. […] Þetta hefur verið kynnt með bæklingi frá Hitaveitu Egilsstaða og Fella í hvert einasta hús og allir eiga að vita um það,“ sagði Gunnar.

Héraðslisti vill finna hvar vatn seytlar inn

Fulltrúi Héraðslista í stjórn hitaveitunnar var samþykkur því að farið yrði í eitt hreinsivirki en nú hefur framboðið mótað sér þá stefnu í málinu að rétt sé að fara aðra leið. Á Framboðsfundi RÚV á Rás 2 sagði Steinar Ingi Þorsteinsson, oddviti Héraðslistans, að framboðið vildi freista þess að halda í hreinsivirkin. „Það er mikið af vatni að fara inn á kerfið hjá okkur, yfirborðsvatni og grunnvatni. Við viljum gera mælingar á hvar það er og sporna við því að það sé að fara út í síurnar því að við erum að hreinsa allt of mikið af hreinu vatni. Þar viljum við fyrst og fremst ráðast á vandann og þá á núverandi kerfið, að gera annað því betur.“

Segir dýrt að ráðast í tvöföldun

Anna Alexandersdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði framboðið vera sammála um þá leið sem sé verið að skoða, sem sagt að reisa nýtt hreinsivirki fyrir allt skólp við Melshorn. Hún hafði ekki mikla trú að þeirri leið að finna staði þar sem vatn lekur inn í fráveituna. „Við erum með steinlagnir sem drena á samskeytum á mjög mörgum stöðum. Við þyrftum að taka upp götur og tvöfalda kerfið. Ef við ætlum að hlaupa í þetta verkefni þá er það mjög kostnaðarsamt,“ sagði Anna.

Framsókn vill skólpið út í Lagarfljót

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknar, sagðist ekki sammála því að hreinsivirkin hefðu ekki verið vandamál, því íbúar í nágrenni þeirra hafi kvartað undan lyktamengun. „Ég held að ef að þú myndir horfa á þetta þéttbýli hérna og velta því fyrir þér, hver er besta lausnin varðandi fráveitu, þá er það ekki að veita fráveitunni í vatnslitla bergvatnsá, heldur að koma henni út í besta viðtakann sem við höfum, sem er Lagarfljótið í einni útrás. Hreinsa síðan eins og lög og reglugerðir gera ráð fyrir og eins og umhverfið verðskuldar. […] Ég held að það sé ekki boðlegt í þessu máli að fálma eftir einhverjum lausnum eins og að kanna það hvort við getum ekki fundið hvar vatnið er að koma inn í kerfið, hvar vandamálin eru. Þetta er bara verkefni sem mun taka okkur langan tíma að tvöfalda þessa fráveitu,“ sagði Stefán Bogi.

Rætt var um fjölmörg málefni á framboðsfundinum sem haldinn var í Egilsstaðaskóla í gærkvöld. Hlusta má á upptöku af fundinum í spilaranum hér fyrir ofan og horfa á myndband á vef Fljótsdalshéraðs.