Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Frank N. Furter er auðvitað geimvera“

Mynd: RÚV / RÚV

„Frank N. Furter er auðvitað geimvera“

01.10.2018 - 12:24

Höfundar

Leikhópur Borgarleikhússins sýnir um þessar mundir söngleikinn Rocky Horror í 60. sinn frá því frumsýnt var í mars. Páll Óskar sem leikur Frank N. Furter í sýningunni arkaði á hælaskónum ásamt fríðu föruneyti í Stúdíó 12 síðasta föstudag og tók lagið.

Rocky Horror eftir bresk-nýsjálenska leikarann Richard O'Brien er fyrir löngu orðið sígilt verk en í þessum tímamótasöngleik leitar kærustuparið, Brad og Janet, ásjár í gömlum kastala í aftakaveðri eftir að springur á bílnum hjá þeim. Þar hitta þau fyrir klæðskiptinginn og vísindamanninn Frank N. Furter og teymi hans sem er skipað ansi skrautlegum persónum. Unga parið glatar sakleysi sínu smátt og smátt enda freistingarnar margar og endirinn kemur alltaf jafn skemmtilega á óvart. Uppfærsla Borgarleikhússins er nú í leikstjórn Mörtu Nordal og ný þýðing verksins var í höndum Braga Valdimars Skúlasonar.

Matthías Már Magnússon í Popplandi Rásar 2 spurði Pál Óskar aðeins um persónu Frank N. Furter, „Hann er mjög stjórnsamur, hann er eins konar blanda af harðstjóra og barni. Það má hins vegar aldrei gleyma því þegar maður fer í skóna hans Franks að hann er auðvitað geimvera. Málið er að þetta verk fær ýmislegt að láni frá hryllingskvikmyndum og vísindaskáldskap og er samið um 1973, í miðri kynlífsbyltingu, kvenréttindabaráttu og hinseginbaráttu sem var þá að skjóta rótum og ná fótfestu. Þetta er því mjög áhugaverður grautur. Með enga smá músík í ofanálag.“

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið
Úr uppfærslu Borgarleikhússins á Rocky Horror.

Tónlistarmaðurinn Valdimar Guðmundsson leikur Eddy í leiksýningunni og segir Páll að sú persóna sé hálfgert sköpunarverk Frank-N-Furters, „Hann er þó mennskur, það má vel vera að einhvern tímann hafi spungið á bílnum hjá honum og hann hafi í kjölfarið ratað í kastala Frank-N-Furters. Kannski að Frank stundi það að draga inn mennskt kjöt og föndri aðeins við það? Frank N. Furter er geimvera sem féll kylliflatur fyrir öllu því mennska, hrífst af menningunni okkar og kynlífinu. Á sama tíma er hann jafn stjórnsamur og Drakúla og vill hafa stjórn á hlutunum. Hann er líka jafn ástríðufullur vísindamaður og Frankenstein. Allt saman er þetta því áhugaverð blanda.“

Matti ræddi við Pál Óskar og hljómsveitarstjóra sýningarinnar, Jón Ólafsson píanóleikara. Ásamt Jóni í hljómsveitinni eru þau Birgir Baldursson, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, Stefán Már Magnússon og Steinar Sigurðarson. Páll Óskar og Valdimar fluttu ásamt leikurum sýningarinnar þrjú lög.

Hlusta má á flutninginn með því að smella á myndina efst.

Tengdar fréttir

Tónlist

Djass er frelsi

Tónlist

Hljómsveitin stofnuð upp úr lygi

Leiklist

Páll Óskar of vænn fyrir Rocky Horror