Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framvörður kynslóðar hættir að dansa

Mynd:  / 

Framvörður kynslóðar hættir að dansa

09.03.2019 - 11:00

Höfundar

Þessi vika byrjað með hvarfi undramanns og íkons, Keith Flint úr Prodigy var allur. Hann var dansarinn með djöfullega andlitið, djókerinn með eiturgrænu bartana, rapparinn með róttæka lífsstílinn, sá sem bar eld að heilli kynslóð.

Hann bjó kannski ekki til tónlistina en hann var andlit The Prodigy sem reif reifið úr ólöglegum iðnaðarhúsum og skítugum kjöllurum og stökkbreytti yfir í menningarbyltingu á alþjóðlegum skala - sem rauk upp vinsældarlista, hertók íþróttaleikvanga og slettist upp um sjónvarpsskjái um allan heim í upphafi tíunda áratugarins.

Hiphopið hefur kannski ráðið ríkjum það sem af er 21. öldinni en danstónlistin átti síðasta áratug þeirrar tuttugustu skuldlaust. Enginn sem er af minni kynslóð og var að verða unglingur í upphafi tíunda áratugarins gat verið ósnortinn af þeim teknótrylltu sviptivindum sem The Prodigy blésu yfir landið.

Liam Howlett kom frá Braintree í Essex og lærði ungur á píanó, en fór svo að hlusta á hiphop, breikdansa, en skolaðist loks með acidhouse-bylgjunni sem reið yfir Bretland í lok níunda áratugarins. Keith Flint hitti Liam á reifi árið 1989 þar sem sá síðarnefndi þeytti skífum og Keith varð svo uppnuminn af settinu að hann bað Liam um að búa til mixteip fyrir sig. Sá svaraði kallinu nokkrum dögum síðar, en á aðra hlið spólunnar setti hann frumstæðar demó-upptökur eftir sjálfan sig og krotaði á spóluna Prodigy, eftir Moog Prodigy hljóðgervlinum sínum.

Keith Flint fílaði spóluna svo mikið að hann bjó til dansrútínur við tónlistina og hafði svo samband við Liam og lýsti yfir áhuga á að stofna hljómsveit með honum ásamt hljómborðsleikaranum Leeroy Hill og rapparanum Maxim. Úr varð fyrsta útgáfan af The Prodigy sem fljótlega komst á mála hjá XL-útgáfunni sem var þá nýstofnuð en gaf síðar út bönd eins og Sigur Rós, The xx, og M.I.A.. Fyrsta útgáfa The Prodigy sem synti á móti meginstraumnum var lagið Charly sem kom út árið 1991 og samplaði teiknimyndina Charly says, það byrjaði sem klúbba- og reif-slagari, en klifraði svo alla leið upp í þriðja sæti breska vinsældalistans.

Ég var hins vegar bara aumur drengstauli á Íslandi sem varð fyrst var við The Prodigy í félagsmiðstöð Austurbæjarskóla um tólf ára aldurinn – þar sem tvö lög voru allsráðandi á diskótekum. Outer Space var annað þeirra, sem byrjar á þyngdarlausum synþastrengjum og æsilegum hljómborðum áður en gígantískt trommubreikið þrammar inn. Olían sem kveikti bálið voru brass-stungur, plötuklór, og hástillt rödd, I’ll Take Your Brain to Another Dimention, áður en allt dettur skyndilega í dúnalogn, í Jamæku-gír með sampli frá reggílaginu Chase The Devil með Max Romeo, hvers hljóðheimur er kokkaður upp af töfralækninum Lee Scratch Perry.

Hitt lagið var No Good (Start the dance), smáskífan af annarri breiðskífu þeirra Music For The Jilted Generation sem kom út 1994. Það hefst á stamandi orgel-línu og raddsampli í helíumhraða, You’re No Good For Me, I don’t Need Nobody, Don’t you no one, thats no good for me. Síðan kemur groddaleg bassalína og tryllingslegur trommutaktur setur punktinn yfir partý-ið. Meðfylgjandi var myndband tekið upp í svarthvítum reif-kjallara – og þar sá ég Keith Flint fyrst. Það opnuðust dyr og fyrir innan var hann, með skítuga dredda og satanískur til augnanna, hoppandi eins og skopparakringla skjótandi löppunum í allar áttir, en horfði allan tímann beint í augun á okkur og svipurinn sagði „svona eigið þið að gera þetta“. Enda dönsuðu allir á diskótekum í Austurbæjarskóla, Hagaskóla og Tónabæ alveg eins og hann í þessu myndbandi, næstu þrjú árin að minnsta kosti. Ég lærði það aldrei almennilega en guð hvað ég reyndi, og þau sem náðu sérstaklega góðum tökum á því voru svölustu krakkarnir í bekknum.

Ég var bara tólf ára og var ekki hleypt á fyrstu tónleika The Prodigy á Íslandi árið 1994 í Kaplakrika, og enn síður þegar þeir komu á fyrstu alvöru tónlistarhátíðina á Íslandi, Uxa árið 1995, þar sem þeir léku ásamt Aphex Twin, Björk, Atari Teenage Riot og Underworld, til að nefna örfáa. Þeir áttu eftir að koma oftar síðar, til að mynda 1997 og 2006, en fengu alltaf óblíðar móttökur hjá lögreglu og tollgæslu sem þóttu fullvíst að þeir smygluðu vímuefnum til landsins. Platan Music For The Jilter Generation var einmitt öðrum þræði pólitísk, og í laginu Their Law, var bresku lagabreytingunni Criminal Justice and Public Order Act 1994 mótmælt, en þau veittu meðal annars lögreglu auknar heimildir til að leita á fólki og banna samkundur sem byggðust á „endurtekningarsamri“ tónlist, og beindust sérstaklega að reif-veislunum sem á þessum tíma voru orðnar mjög vinsælar. 

Music For The Jilted Generation var enda yfirlýsing og ákall til heillar kynslóðar, gríðarlega metnaðarfull plata og fyllti plássið á geisladisknum, ríflega 70 mínútur. Þar var hægi bruninn í Poision og rokkaði drum’n’bass slagarinn Voodoo People, auk þess sem síðustu þrjú lögin mynduðu það sem var kallað The Narcotic Suite, eða eiturlyfjasvítan, og var 20 mínútna margkaflaskipt og proggað dansverk, með flautusólóum sem Liam Howlett sóttist eftir að fá Ian Anderson til að spila, þó sú ósk hafi víst ekki náð til hans.

Það liðu svo tvö heil ár fram að næsta lagi, Firestarter sem kom út 1996, og varð þeirra fyrsta til að komast á topp breska smáskífulistans. Þar þandi Keith Flint raddböndin í pönkuðum rapplínum og frumsýndi nýja hárgreiðslu í myndbandinu, rakað í miðjunni en oddhvasst upp frá eyrunum, sem leit út eins og horn og gerði hann enn djöfullegri en ella.

Breiðskífan Fat of The Land kom svo út ári síðar, sumarið 1997, og fór rakleiðis á topp breska breiðskífulistans sem og bandaríska Billboard. Keith Flint spilaði þar stærri rullu en áður og beitti rödd sinni í fjórum lögum, þar á meðal risahittaranum Breathe. Platan varð þeirra stærsta til þessa og hefur selst í tíu milljónum eintaka. Eftir massíva tónleikaferð tók það svo Liam Howlett sjö ár að gera næstu plötu, Always Outnumbered, Never Outgunned, sem kom út 2004 og var ekki sérlega merkileg utan smáskífunnar Girls. Síðari tíma plötur er svo engin sérstök ástæða til að færa í tal. Ég náði loksins að sjá The Prodigy með eigin augum í rigningarsudda á Secret Solstice árið 2017 þar sem Keith Flint dansaði sem endranær eins og táningur á fyrsta reifinu sínu, þetta var greinilega ennþá allt í vöðvaminninu.

Mynd með færslu
 Mynd:

En nú er vöðvarnir slaknaðir og taugaboðin hætt að berast, Keith Flint fannst látinn á heimili sínu á mánudagsmorgunn og haft er fyrir satt að hann hafi stytt sér aldur. Hann dansar ekki meira á þessari jörð, en kannski á himnum ofar, eða þá frekar í neðra, þar sem ég held að eftirpartý Lúsífers séu mun hressari og hugnist Flint betur heldur en þau á efstu hæðinni. The Prodigy leiddi danstónlistarbyltingu tíunda áratugarins og flutti tónlistina úr skítugum kjöllurum yfir á gígantíska íþróttaleikvanga. Keith Flint var birtingarmynd pönkaðs viðhorfs neðanjarðarsenu sem braust upp á yfirborðið og heil kynslóð hermdi eftir, og andlát hans markar sorgleg tímamót. Ég vona að það verði reif í jarðarförinni hans og dansað á gröfinni, því það er akkúrat arfleifðin sem hann skilur eftir sig.

Tengdar fréttir

Tónlist

Allt sundrast en Ræturnar standa eftir

Tónlist

Leyfið börnunum að koma til Boards of Canada

Tónlist

Geðþekkir hnettir á sporbaug um kúlið

Tónlist

Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar