Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framsóknarflokkurinn aldrei verið öflugri

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segist ekki muna eftir flokknum öflugri en nú. Fjölmenni var á miðstjórnarfundi flokksins á Laugarbakka í Miðfirði. Þar var meðal annars rætt um komandi sveitarstjórnarkosningar og innra starf flokksins. Formaðurinn er bjartsýnn á að boðað verði til annars miðstjórnarfundar á næstu dögum til að greiða atkvæði um ríkisstjórnarssamstarf.

Stjórnarmyndunarviðræður við Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokk var ekki á formlegri dagskrá á miðstjórnarfundi flokksins í Miðfirði í dag. Fátt var þó meira um rætt manna á meðal og formaður flokksins kom inn á viðræðurnar í sinni ræðu á fundinum. „Þær hafa gengið ágætlega og við erum að vonast til að sjá til enda fljótlega,“ segir Sigurður Ingi. 

Það mátti skilja þig þannig að þessi hópur yrði jafnvel kallaður saman eftir fáa daga? „Ef það gengur eftir, en ég ítreka þetta er ekki búið fyrr en það er búið, að þá er þetta fólk sem situr í miðstjórn kallað saman til að samþykkja málefnasamninginn. Þannig eru lög flokksins,“ svarar Sigurður Ingi. 

„Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna að mynda hér starfhæfa ríkisstjórn og það munum við gera. Hvort það taki einhverja fleiri daga í viðbót er erfitt að segja til um á þessum tímapunkti, en okkur mun takast það,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, aðspurð um hvað taki við náist ekki saman í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum. 

Sem kunnugt er varð klofningur í Framsóknarflokknum skömmu fyrir kosningar þegar fyrrverandi formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði sig úr honum og stofnaði nýjan flokk. Sigurður Ingi segir að þrátt fyrir það sem á undan sé gengið sé flokkurinn sterkari en hann hafi verið í langan tíma. 

„Ég man ekki eftir eins öflugum flokki og mikilli gleði eins og er í flokknum þessar vikurnar. Eins og ég fór yfir í minni ræðu þá hefur endurreisnin hafist  og hún hófst í raun og veru í kosningunum. Út úr kosningunum náðum við frábærum árangri, frábærum sigri. En það sem var stærsti sigurinn er að flokkurinn gengur sem ein heild, eftir allt sem á undan er gengið, finnst mér það stórkostlegt og ég er gríðarlega stoltur af því.“

 

gislie's picture
Gísli Einarsson
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV