Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Framsóknarflokkur í lykilstöðu í Ísafjarðarbæ

Bærinn, eyrin, Ísafjörður, Rúv myndir, yfirlitsmynd
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Útlit er fyrir að breytingar á bæjarstjórastólum á Vestfjörðum eftir kosningarnar á laugardaginn. Í Ísafjarðarbæ féll meirihluti Í-listans og þar eru framsóknarmenn í lykilstöðu.

 

Allir rætt við alla

Þreifingar eru hafnar í Ísafjarðarbæ eftir að meirihluti Í-listans féll á laugardaginn. Framboðin hafa öll rætt eða fundað sín á milli. Enginn náði hreinum meirihluta en Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu en þeir bættu við sig manni. Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti, segir líklegt að það liggi fyrir í dag með hvorum hinna flokkana þeir hefji viðræður. Framsóknarflokkurinn setur kröfu á að auglýst verði eftir bæjarstjóra og Marzellíus segir flokkinn standa fast á þeirri kröfu. Því gæti svo farið að Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóraefni Í-listans, láti af störfum sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Nýr meirihluti í Vesturbyggð

Í Vesturbyggð féll meirihluti Sjálstæðismanna og óháðra þegar nýtt framboð, Ný sýn, náði meirihluta. Samkvæmt oddvita Nýrrar sýnar, Iðu Marsibil Jónsdóttur, eru allar líkur á að auglýst verði eftir bæjarstjóra. Ásthildur Sturludóttir hefur verið bæjarstjóri Sjálfstæðismanna og óháðra til átta ára.

Auglýsa eftir sveitarstjóra

Í Tálknafjarðarhreppi buðu tveir flokkar fram en í kosningum árið 2014 var persónukjör. List óháðra náði meirihluta og samkvæmt Bjarnveigu Guðbrandsdóttur, oddvita flokksins, verður auglýst eftir sveitarstjóra á næstu dögum. Indriði Indriðason var ráðinn sveitarstjóri árið 2013.

Meirihlutar héldu í Bolungarvík og Súðavíkurhreppi

Í Bolungarvík hélt meirihluti Sjálstæðismanna og starfandi bæjarstjóri, Jón Páll Hreinsson er þeirra bæjarstjóraefni og Hreppslistinn hélt meirihluta í Súðavík en starfandi sveitarstjóri, Pétur G. Markan er sveitarstjóraefni þeirra. Í öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum var persónukjör.