Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framsókn þótti eins manns meirihluti of naumur

Mynd: jón þór víglundsson / RÚV
„Niðurstaðan er sú að við erum ekki að ná þessu saman. Það liggur fyrir að meirihlutinn, 32 manna meirihluti, þykir af einhverjum flokkum of naumur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, þegar hún staðfesti viðræðuslit við Framsóknarflokkinn, Samfylkinguna og Pírata um stjórnarmyndun. Framsóknarmönnum þótti eins manns meirihluti í þinginu of lítill til að mynda stjórn við þær aðstæður sem yrðu uppi á kjörtímabilinu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins sagði að sínum þingflokki þætti eins manns meirihluti of naumur til að byggja stjórnarsamstarf á við núverandi aðstæður. Hann sagði það vonbrigði að ekki yrði lengra komist í stjórnarmyndun. Hann sagðist telja það ákall í þjóðfélaginu að ná saman breiðari stjórn til að takast á við þá stöðu sem framundan sé í kjaramálum og efnahagsmálum. „Við teljum einfaldlega að við verðum að leggja af stað eftir það sem á undan er gengið í íslenskum stjórnmálum með traustari, rúmari meirihluta til að takast á við þessi stóru verkefni.“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata, lýstu bæði vonbrigðum með að ekki hefði orðið af stjórnarmyndun núna. 

Allir formennirnir lýstu þeirri skoðun að viðræður flokkanna um málefni hefðu gengið vel. Sigurður Ingi sagði að málefnaumræður hefðu gengið vel en ekki hefði verið búið klára þær að öllu leyti og margir þurft að ýta málum til hliðar og hafa væntingar í hófi. Hann sagðist hafa áhyggjur af því fara af stað með tæpan meirihluta þar sem menn þurfa að láta ýmis mál liggja. „Og geta ekki staðið við það vegna þess að við erum að fara inn í lægri hagsveiflu, minni tekjur, meiri væntingar um uppbyggingu og erfiðar kjaraviðræður.“

Katrín fer á Bessastaði á fund forseta klukkan fimm. „Ég hyggst nýta það svigrúm sem ég hef þangað til til þess að fara yfir aðra möguleika í stöðunni,“ sagði Katrín í hádeginu.

Sigurður Ingi sagðist „alveg örugglega“ myndu taka símann ef Katrín hringir aftur í hann í dag. Þórhildur Sunna sagði öll spil upp á borðinu og að Píratar væru tilbúnir að skoða allar leiðir og svara kallinu. Logi sagði Samfylkinguna tilbúna að skoða ýmsa kosti en vera reiðubúna að vera áfram í harðri stjórnarandstöðu. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

 
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV