Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framsókn samþykkir ekki ESB-atkvæðagreiðslu

31.10.2017 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Framsókn
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segir að flokkurinn muni ekki samþykkja í viðræðum um ríkisstjórnarsamstarf við VG, Pírata og Samfylkingu að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Þetta kom fram í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

 

„Niðurstaða þessara kosninga er ekki að segja okkur það að þetta mál sé á dagskrá íslenskra stjórnmála.“

Þetta er ekki mál sem þið viljið að ný ríkisstjórn taki með nokkrum hætti upp, hvað með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, að þjóðin ákveði með framhald viðræðna? „Ég held að það sem þjóðin sé ekki að kalla eftir séu frekari kosningar,  hún vill frekar að stjórnmálin nái sátt um þessi mikilvægu málefni og þessvegna er ég að segja að það sem við leggjum upp með þarf að vera mjög skýrt, bæði þau markmið sem við höfum og hvernig við ætlum að gera þetta“ segir Lilja.

Þannig að bara svo við höfum það á hreinu þá viljið þið ekki sjá þessar kosningar þá um framhald viðræðna? „Nei við teljum að þetta mál sé ekki á dagskrá íslenskra stjórnmála“ Segir Lilja. 

Lilja segir að verkefnin á sviði íslenskra stjórnmála séu ærin, óþarfi sé að bæta þessu við enda myndi það veikja ríkisstjórnina.

„Það verður mjög erfitt að starfa í þannig ríkisstjórn þegar helmingurinn er með og hinn helmingurinn er á móti því að þeir sem tapa þeirri kosningu, og það verður alltaf annar hvor aðilinn, þeir missa umboð sitt þá og þegar“ segir Lilja og rifjar upp ríkisstjórn VG og Samfylkingar eftir hrun.

„Þá fór rosalegur tími og orka í þessa aðildarumsókn“ segir Lilja.  

 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV