Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Framsókn sættir sig við 11% matarskatt

26.11.2014 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Framsóknarflokksins munu sætta sig við að virðisaukaskattur á matvæli hækki í ellefu prósent en ekki tólf segir formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Breytingin muni rúmum tveimur milljörðum fyrir neytendur. Formaður Samfylkingarinnar segir að engin sátt sé um breytinguna.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur lagt til að neðra þrep virðisaukaskatts hækki í ellefu prósent en ekki tólf prósent eins og lagt er til í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Í þessu þrepi er meðal annars matur. Tillagan hefur vakið hörð viðbrögð og óvíst um stuðning þingmanna Framsóknarflokksins við þessar breytingar. Fjallað var um málið á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Segir engan stjórnarþingmann ánægðan
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem á sæti í nefndinni, segir að lítil samstaða sé um málið. „Það virðist vera sem að stjórnarflokkarnir eigi mjög erfitt með að komast að niðurstöðu í þessu máli og þetta er orðið mikið vandræðamál fyrir stjórnarflokkana. Ég verð ekki var við að nokkur stjórnarþingmaður sé ánægður með eða telji þessa breytingu úr 12% í 11% breyta nokkrum sköpuðum hlut.“

Stjórnarliðar ánægðir
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir þetta ekki rétt. „Ég upplifi það nú ekki þannig. Það getur verið að hann sé ekki hrifinn af því að fara í 11% í staðinn fyrir 12% en við sem erum í stjórnarmeirihlutanum, við erum ánægð með þetta. Þetta þýðir í sjálfu sér að það verða ríflega 2,2 milljarðar eftir hjá neytendum miðað við fyrri hugmyndir. Sem þýðir að þær mótvægisaðgerðir sem við höfðum verið að skoða þurfa ekki að vera jafnmiklar.“

„Já já. Að sjálfsögðu,“ svarar Frosti aðspurður hvort hann telji að þingmenn Framsóknarflokksins sætti sig við þessa breytingu á virðisaukaskattinum. „Þetta er í raun og veru mjög góð breyting og öllum neytendum til hagsbóta,“ segir Frosti. „Það er að sjálfsögðu hækkun á matvæli en við eigum eftir að sjá nákvæmlega hver endanlegu áhrifin á matarreikninginn eru.“