Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Framsókn sækir fylgið á landsbyggðina

Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn mældist með 26 prósenta fylgi í könnun Gallup sem var birt í gær. Fylgi flokksins er hins vegar mjög misskipt eftir landshlutum og er töluvert meira á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Flokkurinn fær nítján þingmenn eins og Sjálfstæðisflokkurinn en litlu munar að tuttugasti maður Sjálfstæðisflokksins ýti út nítjánda manni Framsóknarflokksins. Fylgið við Framsóknarflokkinn er mest í norðvesturkjördæmi og suðurkjördæmi, 36 prósent í hvoru kjördæmi. Flokkurinn fengi þrjá kjördæmakjörna þingmenn í norðvesturkjördæmi og fjóra í suðurkjördæmi. Fylgið er um og yfir 30 prósentum bæði í norðausturkjördæmi, þar sem flokkurinn fengi þrjá menn, og í suðvesturkjördæmi, þar sem fjórir Framsóknarmenn kæmust á þing. Fylgið er hins vegar mun minna í Reykjavík, nítján prósent í Reykjavíkurkjördæmi suður, sem dugar fyrir tveimur mönnum, og þrettán prósent í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem flokkurinn fengi þá aðeins einn mann. Þrír uppbótarþingmenn færu auk þess til flokksins en ekki er hægt að sjá í hvaða kjördæmi þeir lentu.

Ef Framsóknarflokkurinn nær í næstu kosningum þessum 26 prósentum sem hann mælist með yrði það mesta fylgi sem flokkurinn hefur fengið frá árinu 1967.

Fylgi annarra flokka dreifist almennt öllu jafnar um landið. Sjálfstæðisflokkurinn sækir þó heldur meira fylgi til landsbyggðarinnar meðan Samfylkingin, Björt framtíð og Vinstri græn njóta heldur meira fylgis á höfuðborgarsvæðinu.