Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Framsókn fengi fleiri þingmenn

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með hærra fylgi en Framsóknarflokkurinn, eða 0,4 prósentustigum hærra. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir Morgunblaðið.

Samkvæmt henni myndu nýjustu fylgistölur skila Sjálfstæðisflokknum 18 þingmönnum og Framsóknarflokki 20. Það skýrist af misvægi milli kjördæma.

62% svarhlutfall

Könnunin var gerð dagana 17. til 23. apríl og náði hún til tæplega 2400 kjósenda á landinu. Svarhlutfall var 62%. Samkvæmt könnuninni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 24,8% fylgi og fast á hæla honum kemur Framsóknarflokkurinn með 24,4%. Borið saman við niðurstöður síðustu könnunar Félagsvísindastofnunar dalar fylgi Framsóknarflokksins um 3,7 prósentustig en fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst um 0,4. 

Ekki marktækur munur

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði, er forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Hann segir að munurinn sé ekki marktækur. „Í rauninni eins og hefur verið í síðustu könnunum þá hafa báðir þessir flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, verið með um 25% atkvæða og það er ekki marktækur munur,“ segir hann. 

Munur á þingmannafjölda

Ólafur segir hins vegar athyglisvert að samkvæmt þessari könnun fái Framsóknarflokkurinn 20 þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn 18. „Ef þetta gengi eftir þá væri það í fyrsta skipti síðan 1983 sem að kosningakerfinu tekst ekki að búa til jöfnuð milli flokka sem komast yfir 5% við úthlutun þingsæta. Þessu átti að breyta 1987. Þetta liggur í því að Framsóknarflokkurinn er að fá svo marga kjördæmakosna menn í litlum kjördæmum úti á landi, og þá nægja jöfnunarmennirnir ekki til þess að láta hina flokkana fá jafnmarga þingmenn og þeir ættu að fá,“ segir Ólafur. 

Ættu að ganga til stjórnarflokkanna

Ólafur segir að ef rétt væri skipt ættu þessir tveir þingmenn að ganga til stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Samkvæmt könnununni mælist Samfylkingin með 13,6% fylgi sem er 1,4 prósentustigum hærra en í síðustu mælingu. Sömuleiðis eykst fylgi Vinstri grænna sem nú mælist 10,8%. Björt framtíð er með 7,3% og Píratar 6,4%. Fylgi Dögunar eykst um 0,2% og stendur í 3,2%, Hægri Grænir eru með 2,8%, Lýðræðisvaktin með 2,6% og Flokkur heimilanna með 1,4%. Aðrir flokkar mælast með minna.