Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Framsókn ekki verið stærri í 17 ár

Mynd með færslu
 Mynd:
Framsóknarflokkurinn nýtur 22ja prósenta fylgis í nýrri skoðanakönnun Gallups og hefur ekki mælst jafnstór í 17 ár. Sjálfstæðisflokkurinn getur myndað tveggja flokka stjórn með Framsóknarflokki eða Bjartri framtíð eftir kosningar gangi þetta eftir.

Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 22 prósent, sem er átta prósentustigum meira en fyrir mánuði. Flokkurinn hefur ekki mælst með jafnmikið fylgi síðan 1996 og fengi 16 menn á þing ef þetta verða úrslit kosninga.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur minnkað nokkuð frá síðustu könnun, hann fengi 30 prósent atkvæða miðað við könnuna nú, en var með 36 prósenta fyrir mánuði. Flokkurinn fengi 21 mann kjörinn.

Björt framtíð mælist nú með 16 prósenta fylgi og hefur það minnkað um þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Flokkurinn fengi 11 menn á þing.
Miðað við þessar niðurstöður eru til tvö tveggja flokka ríkisstjórnarmynstur; Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð.

Fylgi við ríkisstjórnarflokkana heldur áfram að minnka. Samfylkingin nýtur nú 15 prósenta fylgis og fengi 10 menn kjörna og Vinstri grænir njóta sjö prósenta fylgis og fengju 5 menn kjörna. Þetta er helmingur þess fylgis sem þessir flokkar fengu í síðustu kosningum.

Aðrir flokkar ná ekki manni á þing miðað við núverandi fylgi og er fylgi þeirra samanlagt um átta prósent.