Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framlög til stjórnmálaflokka aukin um 127%

21.12.2017 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Sex stjórnmálaflokkar fara fram á að framlög ríkisins til stjórnmálaflokka verði hækkuð um 362 milljónir króna. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar segir flokkana sammála um að nauðsynlegt sé að leiðrétta framlögin.

Fulltrúar flokkanna sem skrifuðu undir erindið til fjárlaganefndar eru Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Vinstri grænna, Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, Ásgeir Runólfsson, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, Svanur Guðmundsson, fulltrúi Miðflokksins, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar. Kjarninn greindi fyrst frá málinu. 

Heildarframlög til stjórnmálaflokka eru í dag 286 milljónir króna. Í erindinu segir að framlög til stjórnmálaflokka hafi í raun lækkað frá ári til árs og því sé þess krafist að framlögin verði leiðrétt.

Birna segir fulltrúa flokkanna hafa sammælst um það að ef ekkert breytist sé ekki hægt að uppfylla markmið laga um fjármál stjórnmálasamtaka um að auka traust og efla lýðræði. „Lögunum var breytt 2007 og þá voru settar miklar takmarkanir á frjáls framlög til stjórnmálaflokkanna en á móti átti að tryggja rekstrargrundvöllinn með fjárframlögum frá ríkinu. En reyndin er að framlögin hafa helmingast og á sama tíma hefur flokkunum sem skipta á milli sín upphæðinni fjölgað, launa og neysluverðs vísitölur hafa á sama tíma hækkað verulega á tímabilinu og það blasir við að ástandið getur ekki gengið svona til langframa.“ 

Samþykki fjárlaganefnd hækkunina aukast framlög um 127 prósent. „Upphæðin er reiknuð á grunni vísitöluhækkunar frá 2008 og byggir á því að framlögin séu einfaldlega sett á sama stað og þau voru árið 2008 þegar framlögin voru í samræmi við breytingar laganna og það má benda á að í þessari hækkun er ekki tekið tillit til fjölgunar flokka á tímabilinu en árið 2008 skiptist styrkurinn milli 5 flokka en þeir eru 8 í dag.“ segir Birna.

Þrátt fyrir að flokkarnir séu átta voru það bara sex fulltrúar sem skrifuðu undir beiðnina. „Flokkur fólksins kaus að taka ekki þátt í samstarfi flokkanna um verkefnið, Píratar hafa aftur á móti tekið fullan þátt í vinnunni en voru ekki sammála um öll atriði hinnar sameiginlegu tillögu sem var lögð fram. “ segir Birna.

Ekki náðist í fulltrúa Pírata og Flokks fólksins við vinnslu fréttarinnar.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV