
„Það er nauðsynlegt að fólk á ferðalögum viti að þó vegabréfið kunni að vera fallið úr gildi, þá kemst fólk alltaf heim,“ segir Margrét Hauksdóttir forstjóri Þjóðskrár Íslands. Að hennar sögn hefur Ísland til þessa nýtt undanþágu frá reglunni og framlengt vegabréf íslenskra ríkisborgara hafi þess verið óskað.
Starfsmenn sendiráða Íslands framlengdu vegabréf allt fram til 27.október án athugasemda. Breyta þurfti reglugerð sem Innanríkisráðherra hefur nú gert og tekur hún gildi þann 19. nóvember. Að hennar sögn er ekki ljóst hvort reglunum verði fylgt eftir af fullum þunga þegar í stað, en þeir sem ferðast geri það á eigin ábyrgð. Þeir einstaklingar sem hafa framlengd vegabréf hafa ekki vegabréf sem vél getur lesið og munu þurfa að gera ráðstafanir áður en þeir ferðast heim.
Skynsamlegast að sækja sér neyðarvegabréf
Nokkur vandræði geti skapast vegna hertrar öryggisgæslu í Evrópu og er því fólki á ferðalögum sem ekki hefur gilt vegabréf eftir 24.nóvember bent á að leita til ræðismanna Íslands til að nálgast neyðarvegabréf. Vélar geta ekki lesið neyðarvegabréf en eru heimil samkvæmt reglum Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) enda skulu þau gefin út til að aðstoða íslenska ríkisborgara til að komast heim eða á næstu umsóknarstöð vegabréfa.
Að sögn Margrétar varð það ljóst um miðjan október að Alþjóðaflugmálastofnunin hefði gert þá kröfu að vélag gætu lesið öll vegabréf og í framhaldi af því var hlutaðeigandi stjórnvöldum sem heimild hafa til að framlengja vegabréf, s.s. sýslumannsembættum, lögreglustjórum og utanríkisráðuneytinu, vegna sendiráða Íslands erlendis, gert viðvart um um þá breytingu. Í nýlegri tilkynningu ráðuneytisins og Þjóðskrár kemur skýrt fram að reglan um að vegabréf skuli vera læsilegt með vélrænum hætti sé ófrávíkjanleg frá og með 24. nóvember.