Framleiddu amfetamín í bústað í eigu föðurins

03.09.2019 - 23:23
Sumarbústaður í Borgarfirði þar sem amfetamínframleiðsla fór fram.
Sumarhúsið þar sem amfetamínframleiðslan fór fram. Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þrír eru enn í gæsluvarðhaldi vegna framleiðslu á fíkniefnum í sveitum á Vesturlandi og Suðurlandi. Upp komst um amfetamínframleiðslu í Borgarfirði eftir að byrjað var að rannsaka kannabisræktun í Þykkvabæ.

Héraðssaksóknari ákærði í síðustu viku sex manns í tengslum við umfangsmikla fíkniefnaframleiðslu. Þar af voru þrír karlmenn ákærðir fyrir að framleiða amfetamín. Sú framleiðsla fór, samkvæmt ákæru, fram í sumarhúsabyggð í Borgarfirði, þar sem lögreglan fann rúmlega 8,5 kíló af amfetamíni.

Amfetamínið var framleitt í 35 fermetra sumarbústað sem er í eigu föður eins þeirra ákærðu. Í bústaðnum, sem er inni í miðju sumarbústaðahverfi, fundust líka ógrynni af tækjum og tólum sem saksóknari krefst nú að verði gerð upptæk, allt frá öryggisgleraugum og kaffipokapakka til mælikönnu og strimla til að mæla sýrustig.

Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn bendir á að amfetamínframleiðsla sé mjög sérhæfð aðgerð og vandasöm. „Hún er hættuleg, þarna er verið að umgangast mikið af hættulegum efnum, það er sprengihætta, eldhætta, þannig að það að vera að framleiða þetta kallar ekki bara hættu fyrir þá sem eru að gera það. “

Í málinu er einnig ákært fyrir kannabisframleiðslu í Þykkvabæ, og segir Karl Steinar að amfetamínframleiðslan hafi uppgötvast eftir að byrjað var að rannsaka kannabisframleiðsluna.

Tveir hinna ákærðu í málinu, Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson, hlutu fyrir um áratug níu og hálfs og sjö ára fangelsisdóma í Pólstjörnumálinu, þar sem reynt var að smygla tugum kílóa af fíkniefnum sjóleiðis til Fáskrúðsfjarðar. 

Karl Steinar segir að þeir ákærðu hafi greinilega lagt mikið á sig til að leyna framleiðslunni. Rannsóknin hafi reynt talsvert á lögregluna, bæði faglega og tæknilega. Þetta sé þróun sem lögreglan þurfi að einbeita sér að að geta ráðið við.

Fram kom í fréttum RÚV í gær að lögreglan rannsakar nú meint peningaþvætti í tengslum við fíkniefnaframleiðsluna. Fé og eignir fyrir tugi milljóna króna hafa verið kyrrsett eða haldlögð. Karl Steinar segir að peningaþvættisrannsóknin sé nokkuð langt komin en talsverðan tíma taki að púsla öllu saman.

 

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi