Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Framleiða öryrkja með álagi á aðstandendur

25.04.2018 - 09:03
Mynd með færslu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands Mynd: RÚV
Samfélagið framleiðir öryrkja með því álagi sem lagt er á fólk vegna veikinda þeirra sem standaþví næst. Þetta segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Í fréttum RÚV í gær var sögð saga Einars Óla Sigurðarsonar sem hlaut alvarlega heilaskaða í fyrra. Hann hefur verið á Grensásdeild Landspítala en nú stendur honum ekki annað úrræði til boða en að vera vistaður á hjúkrunardeild á heimili fyrir aldraða. Aðstandendur hans segja það ekki ásættanlegt.

Þuríður Harpa sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 að auðvitað ætti að vera hægt að bjóða fólki í sömu stöðu og Einar Óli þjónustu við hæfi en sú væri ekki raunin. „Þetta er ekki einsdæmi. Það hefur tíðkast hérna alla tíð að einstaklingar sem verða fyrir þessu, að fá heilaskaða eða einhverja aðra mikla fötlun og skerðingar, það eru engin úrræði. Það er ekkert í boði.“

Þuríður sagði að ekki væri hugsað um einstaklinginn og aðstandendur sem lenda í þessum aðstæðum. Þetta leiddi til mikils álags á fjölskyldur. Hún sagði alltof algengt að aðstandendur þyrftu að leysa sjálfir úr hlutunum en fengju ekki nauðsynlega aðstoð.  „Við erum bara hreinlega að framleiða öryrkja vegna þess að við erum að setja alltof mikið álag á fjölskyldur og einstaklinga, hvort sem það er maki eða faðir, móðir eða dóttir eða sonur. Þau taka á sig svo mikið álag og svo mikla ábyrgð að þetta fólk fær bæði sálræna og líkamlega kvilla,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV