Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Framkvæmdum við Listasafnið lýkur 2018

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafnið á Akureyri - rúv

Framkvæmdum við Listasafnið lýkur 2018

05.01.2017 - 17:12

Höfundar

Framkvæmdir í Listasafninu á Akureyri hefjast í febrúar og er fyrirhugað að opna nýja sali á fjórðu hæð safnsins um mitt næsta ár. Safnið verður áfram opið með fullri starfsemi og var dagskrá ársins kynnt í dag. Hlynur Hallsson safnstjóri undirritaði þar samstarfssamning við Ásprent Stíl.

Á kynningarfundinum sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var farið í gegnum komandi starfsár og fyrirhugaðar breytingar á húsnæðinu kynntar. Þá var undirritaður þriggja ára samstarfssamningur Listasafnsins og Ásprents Stíls, sem er einn sex bakhjarla safnsins. 

Bætt aðstaða
Áætlað er að framkvæmdum ljúki um mitt ár 2018 og verða þá teknir í notkun nýir sýningarsalir á fjórðu hæð. Aðgengi verður bætt fyrir hreyfihamlaða og barnavagna við innganginn á jarðhæð, ásamt safnbúð og kaffihúsi. Þá segir í tilkynningu að aðstaða fyrir safnkennslu batni til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk fleiri viðburða.

„Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild,” segir í tilkynningunni. 

Notast verður við Ketilhúsið í auknum mæli, meðal annars fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur.

Nína og Freyja opna árið
Sýningarárið 2017 byrjar með tveimur opnunum laugardaginn 14. janúar klukkan 15. Á miðhæð Ketilhússins má sjá yfirlitssýningu á verkum Nínu Tryggvadóttur, Litir, form og fólk, en á svölunum opnar Freyja Reynisdóttir sýninguna Sögur. Ljósmyndasýningar, stór sumarsýning á verkum norðlenskra listamanna og Gjörningahátíðin A! verða á sínum stað í ár, ásamt einkasýningum listamanna á borð við Rúrí, Sigtrygg Bjarna Baldvinsson, Aðalstein Þórsson, Einar Fal Ingólfsson, Georg Óskar og Friðgeir Helgason.