Framkvæmdir við hitaveitulögn stöðvaðar

17.04.2014 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps hefur ákveðið að stöðva framkvæmdir ábúenda á félagsbúinu Miðhrauni 2 við umdeilda hitaveitulögn. Framkvæmdin hafi verið í leyfisleysi.

Framkvæmdir hófust í gær við lagningu hitaveitu frá jörðinni Lynghaga að Miðhrauni II á vegum félagsbúsins þar. Miklar deilur hafa staðið yfir vegna framkvæmdanna.

Hjónin Ólafur Ólafsson athafnamaður og Ingibjörg Kristjánsdóttir eiga nærliggjandi jarðir, Miðhraun I og Eiðhús. Þau og fleiri í sveitinni hafa mótmælt framkvæmdinni harðlega, þar sem hún sé í leyfisleysi og lagnirnar fari um landareign þeirra. Sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps hélt fund um málið í dag og ákvað að láta stöðva framkvæmdina.

Guðbjartur Gunnarsson er oddviti og hann segir að inn á fundinn hafi borist áskorun um það frá 20 íbúum um að þetta mál yrði tekið fyrir. „Þetta snýst um það að setja málið í réttan farveg og að framkvæmdaraðili sæki með formlegum hætti um framkvæmdarleyfi til sveitarfélagsins og það verður þá afgreitt með formlegum hætti. Þetta er framkvæmdaleyfisskyld starfsemi.“

Guðbjartur segir mikilvægt að sömu reglur gildi um þessa framkvæmd eins og aðrar. „Ég tel að sveitarfélög eigi að verja sinn stjórnsýslulega rétt til að taka ákvarðanir og það séu ekki aðilar að framkvæma í leyfisleysi.“  

 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi