Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Framkvæmdir við borgarlínu hefjist árið 2021

29.03.2019 - 19:31
Mynd:  / 
Um fátt var rætt meira fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar en áform um borgarlínu. Á málþingi Reykjavíkurborgar í morgun var farið yfir stöðu verkefnins. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir við borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu hefjist árið 2021. Borgarlínan er nú á undirbúningsstigi sem mun kosta á annan milljarð króna.

„Staðan á borgarlínunni er sú að ríki og sveitarfélög hafa myndað sér sameiginlega sýn um áfangaskiptingu borgarlínunnar og við erum komin með fjármagn í undirbúningsframkvæmdir þannig við erum að byrja að skoða hvað við þurfum að gera til að koma þessu í framkvæmd,“ segir Bryndís Friðriksdóttir, verkfræðingur hjá Vegagerðinni.

Unnið verður að undirbúningi borgarlínu næstu tvö árin. 2019 og 2020 fara í það að ná utan um verkið, skilgreina og forhanna - en farið verður í verkhönnun, útboð og framkvæmdir árið 2021. Fyrsta tímabil borgarlínunnar nær frá 2019 til 2023. Lögð verður leið frá Ártúnshöfða yfir í Vogabyggð, eftir Suðurlandsbraut niður á Hlemm í gegnum miðbæinn. Borgarlínan á eftir að tengja saman háskólana, BSÍ, þróunarás borgarinnar, Kársnes og Hamraborg.

Annað tímabil nær frá 2024 til 2028 og tengir Hafnarfjörð og Garðabæ eftir Hafnarfjarðarvegi með viðkomu í Hamraborg. Jafnframt verður tenging frá Mjódd í Vogabyggð og frá Hamraborg í Austurhluta Kópavogs. Þriðja tímabilið, frá 2029 til 2033, felur í sér tengingu upp í Grafarvog. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir að kostnaðurinn á undirbúniingsstiginu sé á annan milljarð króna. „Kostnaðaráætlunin við borgarlínuna eru rúmir 40 milljarðar en fyrir pakkann í heild um 100 milljarðar,“ segir Dagur. Borgarstjóri segir að fjárveitingin sem ríkið hafi samþykkt nú þegar verði nýtt á þessu ári og því næsta til að klára undirbúning verkefnisins. „Það er lítill hluti af þessari heildarupphæð en það er gert ráð fyrir því að undirbúningurinn á þessu  ári og næsta geti verið á annan milljarð króna.“