Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framkvæmdir hafnar á Bakka

08.05.2015 - 10:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrstu framkvæmdir eru hafnar við iðnaðarlóðina á Bakka við Húsavík, þrátt fyrir að ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um að reisa þar verksmiðju. Enginn kostnaður fellur á sveitarfélagið við framkvæmdina óháð því hvort að áætlanir um byggingu kísilvers á lóðinni ganga eftir eða ekki.

ESA rannsakar orkusölusamninga

Þýska fyrirtækið PCC hefur undanfarin ár undirbúið byggingu Kísilvers á Bakka. Til stóð að endanleg ákvörðun um bygginguna yrði tekin í lok síðasta árs og tilkynnti fyrirtækið að fjármögnun vegna verkefnisins væri nánast lokið. Í desember ákvað ESA, eftirlitstofnun EFTA, að hefja rannsókn á orkusölusamningum Landsvirkjunar og Landsnets við PCC. Ekki verður tekin endanleg ákvörðun um hvort af verkefninu verður fyrr en þeirri rannsókn lýkur en gert er ráð fyrir niðurstöðum síðar í þessum mánuði. Þrátt fyrir það eru framkvæmdir hafnar á lóðinni.

Ákvörðun tekin um framhaldið í byrjun sumars

Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri í Norðurþingi segir það rétt að ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun um verkefnið. 

„Það er alveg rétt að ekki er búið að taka kvörðun um að fara af stað með verkefnið. Þessar undirbúningsframkvæmdir eru mikilvægar ef við gefum okkur að þetta liggi allt saman ljóst fyrir í lok vors og upphafi sumars, að þá sé hægt að athafna sig strax á lóðinni.“

Það má kannski segja að þessar framkvæmdir séu táknrænar. Þetta eru fyrstu framkvæmdirnar sem farið er í við iðnaðarlóðina á Bakka en hér hafa verið áform um að reisa stóriðju í meira en áratug. Verið er að leggja tengiveg inn á sjálfa iðnaðarlóðina og gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við veglagninguna sé um 30-40 miljónir króna. 

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV