Framkvæmdastöðvun hefði sett slæmt fordæmi

25.11.2016 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Rögnvaldur Már Helgason - RÚV
Kröfu Landverndar, um að framkvæmdir við Kröflulínu 4 í Skútustaðahreppi verði tafarlaust stöðvaðar, hefur verið hafnað af úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Engin rök standi til þess að fara fram á slíkt.

Landvernd kærði útgáfu framkvæmdaleyfis sem Skútustaðahreppur gaf út í lok október, en áður hafði úrskurðarnefndin fellt úr gildi framkvæmdaleyfi sem sveitarfélagið gaf út í vor, sömuleiðis eftir kæru Landverndar. Þá var framkvæmdastöðvun samþykkt á meðan úrskurðarnefndin fjallaði um útgáfu leyfisins, meðal annars á grundvelli náttúruverndarlaga. Ákvæði þeirra laga, stjórnsýslulaga og skipulagslaga urðu svo til þess að framkvæmdaleyfið var ógilt.

Kringumstæður aðrar en í sumar

Eins og í vor, gerði Landvernd nú kröfu um að framkvæmdir yrðu stöðvaðar, á meðan nefndin fjallaði um efni kærunnar. Það sé gert til að koma í veg fyrir óafturkræft rask í Leirhnjúkshrauni, Neðra-Bóndadalshrauni og á ótilgreindum víðernum. Landsnet og Skútustaðahreppur bentu á það í sínum mótrökum að kringumstæður væru aðrar nú en í sumar, þegar framkvæmdir voru stöðvaðar. Þá benti Landsnet á að halda þyrfti framkvæmdum áfram á meðan veður leyfi. Fyrr í vikunni greindi fréttastofa þó frá því að jarðvinnu væri lokið í bili vegna vetrarveðurs, en töluverð hlýindi þarf til svo að þær geti haldið áfram. Vinna við samsetningu mastra stendur þó enn yfir.

Of viðurhlutamikið

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segir að það sé of viðurhlutamikið að stöðva framkvæmdir aðeins á þeim grundvelli að umhverfi verði raskað, jafnvel þótt það verði umtalsvert og umhverfið njóti sérstakrar verndar. Flestar framkvæmdir sem þyrftu að sæta umhverfismati myndu þá verða stöðvaðar, án þess að frekari skoðunar þyrfti við. 

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi