Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Framkvæmdastjóri DV hættur störfum

12.09.2014 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Trausti Reynisson, framkvæmdastjóri DV, hefur hætt störfum hjá fjölmiðlinum. Jón Trausti hefur staðfest þetta við fréttastofu. Jón Trausti var framkvæmdastjóri undanfarin tvö ár og þar áður ritstjóri blaðsins í fimm ár.

Hann segir ástæðuna fyrir brotthvarfinu af fjölmiðlinum fyrst og fremst vera vegna þeirrar yfirtöku sem var á útgáfufélaginu. „Aðferðirnar, forsendurnar og afleiðingarnar ganga gegn því sem ég trúi á,“ segir Jón Trausti. „Ég treysti mér því ekki til að starfa lengur fyrir fjölmiðilinn.“

Hann segist óska DV hins besta, og standi fullkomlega með þeim blaðamönnum sem þar starfi, og vonar að þeir standi þetta af sér.

Fleiri hafa hætt störfum hjá DV undanfarið. Aðstoðarritstjóri blaðsins samdi um starfslok fyrr í vikunni og minnst fjórir starfsmenn hafa sagt upp. Þá var ritstjóra blaðsins Reyni Traustasyni vikið úr ritstjórastóli af nýrri stjórn í byrjun vikunnar.

Miklar deilur hafa staðið um stjórn og eignarhald útgáfufélagsins DV, og ný stjórn tók við í lok síðustu viku. Fjöldi áskrifenda hefur sagt upp áskrift hjá blaðinu og margir bloggarar fært skrif sín á annan vettvang.

[email protected]