Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Framkvæmdastjóraskipti eftir úttekt á rekstri

11.06.2018 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sett nýjan framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs í kjölfar úttektar á starfseminni. Þá óskaði stjórnarformaður þjóðgarðsins lausnar. 

Ráðherra ákvað í byrjun árs að láta Capacent gera óháða úttekt á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem afkoma hans og rekstur voru óviðunandi. Úttektin sýnir veruleg frávik í rekstri miðað við fjárheimildir árið 2017.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur sett Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands tímabundið sem framkvæmdastjóri þjóðgarðsins. Samið var við Þórð H. Ólafsson framkvæmdastjóra þjóðgarðsins um að láta af störfum en hann verður sjötugur í haust. Þá óskaði Ármann Höskuldsson formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs lausnar til að helga sig aðalstarfi sínu við kennslu og rannsóknir í jarðfræði. Guðrún Áslaug Jónsdóttir varaformaður stjórnarinnar hefur tekið við formennsku. 

Frétt ráðuneytisins.

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV