Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Framhaldskólakennarar kenna grunnskólaalgebru

08.12.2016 - 17:17
Mynd: RÚV / RÚV
„Ég ver miklum tíma í að kenna stærðfræðireglur sem þau eiga að vera löngu búin að ná tökum á." Þetta segir eðlisfræðikennari við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Eðlisfræðikennari við MS, tekur undir. Stærðfræðikennari við MR, segir aftur á móti færni nemenda góða. Íslenskukennari við Fjölbrautarskóla Breiðholts segir að val á námsefni taki mið af minna lesþreki nemenda og íslenskukennari við MR segist merkja það að orðaforði nemenda og málfræðikunnátta sé verri en áður. 

Hér fara næstum allir í framhaldsskóla

Á Íslandi fara unglingar nær undantekningarlaust beint í framhaldsskóla að loknu grunnskólanámi. Í haust voru 99% þeirra sem útskrifuðust úr grunnskóla í vor skráðir í framhaldsskóla. Flestir sóttust eftir því að komast inn á bóknámsbrautir til stúdentsprófs eða 62%,12% nemenda innrituðust á verk- eða starfsnámsbrautir og 5% á listnámsbrautir. Fimmtungur nemenda innritaðist á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut en þær eru ætlaðar þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði á aðrar námsbrautir. 

Mun minni áhugi á lestri

Niðurstöður PISA-könnunarinnar benda til þess að lesskilningi, náttúruvísindalæsi og stærðfræðilæsi nemenda við lok grunnskóla hafi dalað. Þeir standi nágrannaríkjum langt að baki. Almennt hefur afburðanemendum fækkað og þeim sem ekki uppfylla lágmarksviðmið fjölgað. Ef grunnskólanemar standa að jafnaði verr við útskrift en áður hlýtur það að hafa áhrif upp í framhaldskólana. Anna María Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Kennarasambandi Íslands og íslenskukennari við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, segist merkja breytingar. Nemendur hafi miklu minni áhuga á lestri en áður, finnist það kvöð að lesa og hafi minna lesþrek. 

„Þeim finnst erfitt að lesa langar sögur, þeim vex það í augum. Við þurfum að brytja textana meira niður og taka þá í miklu smærri skömmtum en við gerðum áður.“

Anna hefur brugðist við þessum minnkandi áhuga með því að velja annars konar námsefni en áður, finna bækur sem eru nýrri og nær veruleika unglinganna. Hún las í vetur Tímakistuna eftir Andra Snæ Magnason og Sölvasögu unglings eftir Arnar Má Arngrímsson með nemendum sínum. 

„Við erum farin að leita meira í svona bækur, fyrir 20 árum lásum við Egilssögu með nemendum á fyrsta ári, gamlar klassískar skáldsögur, en við höfum horfið frá því á seinni árum sem tilraun til þess að vekja meiri áhuga.“

Anna María segist líta svo á að það að nemendur geti tjáð sig á tungumálinu skipti meira máli  en það hvaða verk séu lesin. Þá bendir hún á að enn séu lesnar fornsögur og verk eftir Halldór Laxness, til dæmis, þó þau séu ekki lesin á fyrsta ári og áhersla á kjörbækur, sem höfði til ungmenna hafi aukist. Anna María segir að börn lesi síður bækur sér til skemmtunar í dag, þau horfi þess í stað mikið á þætti á ensku, þekki bandaríska dægurmálaþætti út og inn. 

Spyrja og taka þátt í umræðum

Ef hnignunin er almenn hljóta þess að sjást einhver merki í þeim skólum sem þeir sem hæstar einkunni hafa keppast um að komast inn í. Arnbjörn Jóhannesson, íslenskukennari í MR, segist merkja bæði jákvæðar breytingar og neikvæðar. Nemendur séu orðnir opnari en áður. Áður hafi hann átt í samtali í við örfáa nemendur í kennslustund og hinir setið hljóðir en nú taki um helmingur bekkjarins þátt í umræðum og spyrji spurninga. Þetta bendi til jákvæðrar þróunar í grunnskólunum. 

Erfiðara með að taka gagnrýni

Hann telur þó að málfræðikunnáttu hafi hrakað og orðaforði þrengst. Þá segir hann að það beri á einhvers konar lesfælni, líka hjá mjög sterkum nemendum. Loks telur hann að nemendur eigi í dag erfiðara með að taka gagnrýni og segir að þeir mættu vera vanari því úr grunnskólanum að fá athugasemdir við verkefni sín. Hann segir námsefnið ekki hafa breyst og að hann setji svipað mikið fyrir og áður. Sú breyting hafi þó orðið á kennsluháttum hans að nú gefi hann nemendum kost á að byrja á heimaverkefnum í tímum og svari spurningum sem kvikna. 

Náttúrufræðimótsögn: Standa verst en hafa mikið sjálfstraust

Ef horft er til allra ríkja OECD eru íslenskir grunnskólanemar meðal þeirra sem koma verst út úr PISA-könnuninni þegar kemur að læsi á náttúruvísindi. Þetta virðist þó ekki grafa undan sjálfstrausti þeirra. Trú íslenskra nemenda á eigin getu er meiri en í flestum samanburðarlöndum. Ronald Björn Guðnason kennir eðlisfræði við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Hann kennir fyrsta árs nemum sem hafa í hyggju að leggja fyrir sig raunvísindagreinar í háskóla og segir þá ekki nógu vel undirbúna þegar þeir komi í framhaldsskólann. Mikið vanti upp á stærðfræðigrunninn sem sé undirstaða eðlisfræðináms. Nemendur eigi erfitt með einföldustu algebrudæmi.

„Að snúa formúlum, sem er bara stærðfræði. Það kunna þau alls ekki, því miður.“

Ronald segir að það fari mikill tími í upprifjun og minni tími gefist til að sinna eðlisfræðinni. Stærðfræðikennarar lendi í því sama, þeir þurfi að rifja grunnskólastærðfræðina upp með nemendum. Hann segir þessa þróun alvarlega og að með styttingu náms aukist vandinn frekar. 

„Þau fá miklu minna út úr skólanum og eru verr undirbúin undir háskólanám en áður.“

Ronald segist ekki vilja slaka á kröfum, það græði enginn á því. 

„Ég hef heyrt frá öðrum kennurum að þeir séu að slaka á kröfum eða fái fyrirmæli frá kennslustjórum um að slaka á kröfum. Sleppa kannski þessu eða hinu. Ég hef ekki gert það sjálfur, ég er svolítið harður á því.“

„Kærulaus og ráðalaus“

Hann vill ekki kenna grunnskólunum um hvernig komið er. Hann telur að samfélagsbreytingar hafi mikið að segja. Það sé rauður þráður að nemendur séu mikið í tölvuleikjum eða að horfa á sjónvarpsþætti, bæði heima og í skólanum, margir mæti seint á morgnana, því næturnar fari í leiki eða áhorf. 

„Það er mikið kæruleysi, mikið tilgangsleysi, þau vita ekki hvað þau vilja og eru svolítið ráðalaus.“

Segir að efla þurfi stærðfræðikennslu í grunnskólum

Jón Egill Unndórsson, fagstjóri eðlisfræði í Menntaskólanum við Sund, lýsir samskonar vanda og Ronald. Um helmingur nemenda geti ekki einangrað stærðir út úr jöfnum eða breytt mælieiningum. Hann telur að meginástæðan fyrir þessu sé sú að stærðfræðikennsla á grunnskólastigi sé ekki nógu góð, þar skorti fleiri raungreinakennara. Þá segir hann að upp hafi komið umræða meðal kennara um hvort vandinn liggi í þekkingarleysi eða því að nemendur eigi erfitt með að yfirfæra þekkingu sína í stærðfræði á aðrar raungreinar. 

Birgir Guðjónsson kennir nemum á fyrsta ári í MR stærðfræði, hann hefur aðra sýn, segir grunn hópsins góðan, hann verði ekki var við neina afturför milli ára. 

Fá mun minni endurgjöf

Auður Pálsdóttir, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, fór yfir þá þætti sem einkenna raungreinakennslu í grunnskólum hér á landi á fundi um niðurstöðu PISA-könnunarinnar sem fram fór í gær. Nemendur á Íslandi upplifa ríkari stuðning frá kennurum en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndunum og stunda minna af tilraunum og rannsóknum. Fram kom að nemendur hér fengju mun minni endurgjöf en nemendur annars staðar á Norðurlöndunum. Auður vísaði til rannsóknar frá árinu 2007, hún sýndi að raungreinakennarar teldu sig þurfa meiri stuðning, sérstaklega þau 40% þeirra sem ekki hafa sérhæfingu. Auður telur að efla þurfi samstarf kennara, bæta stuðning við þá og leggja meira upp úr endurgjöf svo nemendur fái betri mynd af stöðu sinni. Loks þurfi að efla orðaforða þeirra, og leggja áherslu á lesskilning í öllum greinum.