Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Framboð víða í undirbúningi

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Flokkur fólksins, Píratar, Viðreisn, Miðflokkur, Alþýðufylkingin, Björt framtíð og Íslenska þjóðfylkingin eru þeir flokkar sem stofnaðir hafa verið á undanförnum árum og ætla að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í vor. Ákveðið verður á næstu dögum hvort Sósíalistaflokkur Íslands býður fram.

Flokkur fólksins ætlar að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík í vor. Það er undir grasrót flokksins komið hvort boðið verður fram í öðrum sveitarfélögum, að sögn Ingu Sæland, formanns flokksins. „Við bjóðum fram alls staðar þar sem vilji er til. Þar sem fólkið okkar vill fara fram, þar förum við fram.“ Inga á von á að raðað verði á lista með uppstillingu. Helstu stefnumál flokksins í vor verða að berjast gegn fátækt. „Við berjumst fyrir því að allir hafi fæði, klæði og húsnæði. Það á enginn að þurfa að vera fátækur á Íslandi,“ segir Inga.

Sósíalistaflokkurinn að meta stöðuna

Ekki hefur verið ákveðið hvort Sósíalistaflokkur Íslands býður fram í vor. Flokkurinn hefur staðið fyrir fundum í hverfum Reykjavíkur og í öðrum sveitarfélögum. Að sögn Gunnar Smára Egilssonar, stofnanda flokksins, verður haldinn félagsfundur á sunnudaginn þar sem ákveðið verður hvort flokkurinn býður fram í vor. „Þá ætlum við að draga saman umræðuna á fundunum að undanförnu og meta hvort við viljum og getum boðið fram,“ segir Gunnar Smári. Hann segir koma til greina að bjóða fram lista með öðrum flokkum. Verði ákveðið að bjóða fram í vor velur sérstakur „slembivalinn“ hópur félagsmanna á listana. Helstu stefnumálin verða að standa vörð um hagsmuni láglaunafólks, leigjenda, innflytjenda og fátækra. 

Alþýðufylkingin býður fram í Reykjavík

Ákveðið hefur verið að Alþýðufylkingin bjóði fram í Reykjavík. „Nú erum við að vinna að því að safna frambjóðendum. Sá möguleiki er fyrir hendi af okkar hálfu að bjóða fram með öðrum annars staðar en í Reykjavík en það er ekki orðið ljóst enn hvernig því verður háttað,“ segir Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar. Hann á von á að listi flokksins í Reykjavík verði tilkynntur í mars. Flokkurinn gaf út stefnuskrá í borgar- og sveitarstjórnarmálum fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2014, undir yfirskriftinni „Sósíalismi í einu sveitarfélagi“. Nú er unnið að uppfærslu á stefnuskránni. Þorvaldur segir líklegt að hún verði afgreidd á aðalfundi flokksins 6. mars næstkomandi.

Kanna jarðveginn fyrir framboð víða um land

Stefnt er að því að Miðflokkurinn bjóði fram víða um land í vor. Nú er verið að kanna jarðveginn, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins. Ákveðið hefur verið að raðað verði á lista með uppstillingu í sveitarfélögum í  Suðurvesturkjördæmi. Verið er að undirbúa framboð í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Jóhannes segir að verið sé að kanna jarðveginn varðandi framboð víða um landið. Ekki hefur verið ákveðið hvernig verður raðað á lista utan Suðvesturkjördæmis. Ekki er búið að móta formlega stefnu en Jóhannes segir að flokkurinn sé með ákveðinn grunn til að byggja á. Stefnumálin verði svo mótuð í hverju sveitarfélagi. 

Málin skýrast hjá Viðreisn á næstu dögum

Viðreisn er að leggja línurnar varðandi framboð í vor, að sögn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns flokksins. Hún bindur vonir við að listar verði tilbúnir um næstu mánaðamót. Víða um land er verið að stofna flokksfélög. Að öllum líkindum verður raðað á lista Viðreisnar með uppstillinganefnd á flestum stöðum. „Það er margt í bígerð hjá okkur og myndin mun skýrast og skerpast á næstu dögum,“ segir Þorgerður Katrín. 

Þjóðfylkingin líklega bara fram í borginni

Íslenska þjóðfylkingin stefnir að því að bjóða fram í Reykjavík. Að sögn Helga Helgasonar, stjórnarmanns í flokknum, er nú hafin vinna við undirbúning framboðsins. „Líklega verður bara boðið fram í borginni. Það eru uppi hugmyndir um að bjóða fram í Reykjanesbæ. Það er ekki vitað núna í hvora áttina það gæti farið,“ segir Helgi. Uppstillinganefnd raðar á lista flokksins í vor. Helstu stefnumálin í Reykjavík eru draga til baka leyfi fyrir byggingu á mosku og sömuleiðis að draga til baka leyfi fyrir viðbyggingu á Stofnun múslima á Íslandi í Skógarhlíð. Þá segir Helgi brýnt að endurreisa verkamannabústaði og ráðast í endurbætur á gatnakerfinu. Flokkurinn er ekki hlynntur borgarlínu. Helgi telur margt óljóst í kringum þá fyrirhuguðu framkvæmd.

Píratar raða á lista með prófkjörum

Píratar bjóða fram í Reykjavík, Reykjanesbæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri og í Mosfellsbæ. Verið er að skoða þann möguleika að bjóða fram í samstarfi við aðra flokka í öðrum bæjarfélögum, að sögn Erlu Hlynsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata. Haldin verða prófkjör til að velja á lista í öllum þeim sveitarfélögum þar sem Píratar bjóða einir fram undir sínu merki. 

Prófkjör Pírata hefjast upp úr miðjum mars og verða allir sem kjósa að hafa verið skráðir í flokkinn í að minnsta kosti 30 daga. Að sögn Erlu er málefnastarfið í fullum gangi. Alls staðar verður lögð áhersla á gagnsæi, íbúalýðræði og aðgengi íbúa að stjórnsýslunni. Einnig verður lögð áhersla á velferðarmál. Í Reykjanesbæ verða umhverfismálin sett á oddinn og er andstaða við mengandi starfsemi í Helguvík meðal stefnumála Pírata þar. 

Telur stöðu málefna góða hjá Bjartri framtíð

Ekki náðist í forsvarsfólk Bjartrar framtíðar við vinnslu fréttarinnar. Haft var eftir Björt Ólafsdóttur, formanni flokksins, á Vísi í dag að flokkurinn hafi góða málefnastöðu, sérstaklega þar sem flokkurinn hefur verið í meirihluta; í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Einnig var haft eftir henni að flokkurinn eigi eftir að leggja fram lista og áherslumál sín í borginni. „Sem verður áframhald þeirrar vinnu sem verið hefur og svo okkar framtíðarsýn. Við leggjum það á borð og fyrir kjósendur,“ sagði Björt í samtali við Vísi í dag.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir