Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Fráleit ákvörðun“ segir forsætisráðherra

18.09.2015 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að ákvörðun borgarstjórnar um að sniðganga ísraelskar vörur sé fráleit. Það hafi þegar sýnt sig að ákvörðunin skaði viðskiptahagsmuni Íslands.

Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd meðal Ísraelsmanna í dag. Simon Wiesenthal-stofnunin birti nú síðdegis frétt á vef sínum þar sem hún ráðleggur gyðingum að ferðast ekki til Íslands og segir ákvörðunina fordómafulla. Þá kallaði Ronald Lauder, erfingi snyrtivörurisans Estée Lauder, forseti Heimsþings gyðinga og náinn samstarfsmaður Netanyahu forsætisráðherra Ísraels, kallaði eftir viðbrögðum frá íslenskum stjórnvöldum. Þau komu í dag þegar utanríkisráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu um að þessi ákvörðun Reykjavíkurborgar væri ekki í samræmi við utanríkisstefnu Íslands og ekki í samræmi við íslensk lög.

Sigmundur Davíð benti á yfirlýsingu utanríkisráðuneytisins í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld og sagði ákvörðunina fráleita.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að hugsanlega stangist almenn ákvörðun um viðskiptabann við lög en þarna sé um að ræða ákvörðun sem byggist fimmtu grein innkaupastefnu Reykjavíkurborgar. Þar segi að ekki sé einungis horft til verðs við innkaup heldur einnig gæða, umhverfismála og mannréttindasjónarmiða. 

 

.

.