Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frakkar styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi

29.03.2018 - 22:31
epa06635849 French President Emmanuel Macron delivers a speech during the Artificial Intelligence for Humanity event in Paris, France, 29 March 2018.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT/ POOL MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Lýðræðissveitir Sýrlands, SDF, sem skipaðar eru kúrdískum og arabískum hermönnum, eiga stuðning Frakklands vísan. AFP fréttastofan hefur þetta eftir yfirlýsingu frá franska forsetaembættinu eftir fund Emmanuel Macron Frakklandsforseta með sendinefnd lýðræðissveitanna. Macron sagði herdeildina skipa mikilvægt hlutverk í baráttunni við vígasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki.

Macron lagði ríka áherslu á að setja baráttuna gegn hryðjuverkaógninni í forgang. Því styddi hann SDF, sérstaklega til þess að koma upp öruggu svæði í norðausturhluta Sýrlands. Þannig verði hægt að koma í veg fyrir uppgang Íslamska ríkisins á meðan beðið er pólitískrar úrlausnar í Sýrlandi.

Reuters hefur eftir Khaled Eissa, kúrdískum embættismanni í París, að Macron hafi lofað því að senda franska hermenn til Manbij. Þar eigi þeir að aðstoða við hernaðinn gegn Íslamska ríkinu og koma í veg fyrir að Tyrkir ráðist inn í bæinn. Skrofstofa forsetans neitaði að staðfesta þetta.

Macron bauð fram aðstoð Frakklands og alþjóðasamfélagsins við að koma á friðarviðræðum á milli Tyrkja og SDF. SDF er að miklu leyti skipað liðsmönnum þjóðvarðsveitar Kúrda, YPG, sem Tyrkir sögðu stríð á hendur. Tyrknesk stjórnvöld telja YPG vera hernaðararm PKK, Verkamannaflokks Kúrda, sem er á lista yfir hryðjuverkasamtök í Tyrklandi. Átök Tyrkja og YPG eiga sér stað í Afrin héraði. Tugir almennra borgara hafa fallið í átökunum og um 250 þúsund hafa flúið heimili sín vegna þeirra.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV