Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Frakkar styðja Katara og bjóða aðstoð

16.07.2017 - 03:06
epa06089981 A handout photo made available by the Saudi Press Agency showing French Foreign Minister Jean-Yves Le Drian (L) and Saudi Foreign Minister Adel al-Jubeir (R) shaking hands on the French foreign minister's arrival in Jeddah, Saudi Arabia,
Le Drian og sádi-arabískur starfsbróðir hans, Adel al-Jubeir, takast í hendur við komu hins fyrrnefnda til Jedda á laugardag.  Mynd: EPA - SAUDI PRESS AGENCY
Frakkar kalla eftir afnámi allra hafta og refsiaðgerða gagnvart Katar og katörskum einstaklingum og fyrirtækjum þegar í stað. Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, heimsótti Doha, höfuðborg Katars í gær, og hitti þar meðal annars starfsbróður sinni, Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani, að máli. Le Drian ávarpaði fréttamenn að fundinum loknum og lýsti miklum áhyggjum af þeim snöggu umskiptum til hins verra, sem orðið hafa á sambúð margra Arabaríkja.

Ráðherrann sagði Frakka reiðubúna að gegna hlutverki sáttasemjara í þeim deilum sem uppi eru, telji deiluaðilar það til árangurs fallið. Kúvætar hafa gegnt því hlutverki til þessa. Sagði Le Drian að fulltrúar franskra stjórnvalda ættu í viðræðum við stjórnvöld allra hlutaðeigandi ríkja og hvatti til stillingar og yfirvegaðra viðræðna. Le Drian hélt svo ferð sinni áfram til Sádi-Arabíu, þar sem hann átti fund með þarlendum kollega sínum. Þaðan fer hann til Kúvæt á sunnudag og svo áfram til Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Katar fyrir skemmstu, einnig í leit að lausn á deilum Sádi-Arabíu, Barein, Egyptalands og Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna við granna sína í Katar. Þá hafa háttsettir erindrekar Breta og Þjóðverja einnig freistað þess að miðla málum og fá ríkin fjögur til að aflétta viðskiptaþvingunum sínum, aðflutningsbanni og öðrum þvingunaraðgerðum gegn Katar.

Ríkin fjögur saka Katara um að styðja hryðjuverkasamtök og setja alls þrettán skilyrði fyrir því að aflétta þvingunaraðgerðum sínum. Þar á meðal er að starfsemi Al Jazeera-fréttastöðvarinnar verði stöðvuð eða takmörkuð verulega. Al Jazeera hefur verið gagnrýnin á stjórnvöld þessara ríkja, einkum í Sádi-Arabíu og Egyptalandi og hafa verið leiddar að því líkur að meginmarkmið þvingunaraðgerðanna sé að fá stjórnvöld í Katar til að úthýsa stöðinni og láta af öllum stuðningi við hana.

Al Jazeera hefur meðal annars fjallað um meintan, mikinn og víðtækan stuðning Sádi-Araba við ýmis hryðjuverkasamtök, svo sem Al Kaída, Al-Nusra og Talibana. Í leynilegu skjali bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2009, undirrituðu af þáverandi utanríkisráðherra, Hillary Clinton, kemur meðal annars fram að Sádi-Arabar séu enn „mikilvægur, fjárhagslegur bakhjarl Al Kaída, Talibana, Lashkar-e-Taiba og fleiri hryðjuverkasamtaka.“