Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Frakkar hyggjast fækka þingmönnum um þriðjung

05.04.2018 - 03:19
Erlent · - · Frakkland · Evrópa · Stjórnmál
epa06636904 (FILE) - A file picture dated 28 November 2017 shows French members of the Parliament questioning the government in Paris, France, prior to their vote to ratify the ordinances of the government regarding the labor law (reissued 30 March 2018).
 Mynd: EPA
Ríkisstjórn Frakklands hyggur á lagabreytingar sem miða að því að fækka þingmönnum beggja þingdeilda um nær þriðjung. Er þetta liður í umfangsmiklum kerfisbreytingum stjórnarinnar sem ná eiga til margra helstu stofnana ríkisvaldsins. Í frétt BBC af málinu segir að samkomulag hafi náðst um þessa fækkun milli forsætisráðherrans, Édouards Philippe, og leiðtoga stjórnarandstöðuflokkanna, sem hafa meirihluta í öldungadeild þingsins.

Einnig er ætlunin að minnst 15 prósent þingmanna verði framvegis kosin í hlutfallskosningu, líkt og tíðkast hér á landi, en ekki í einmenningskjördæmum, eins og reglan er í kosningum til neðri deildar franska þingsins.

Með þessu er komið til móts við minni flokka og raunar líka flokka sem njóta umtalsverðs stuðnings meðal kjósenda en koma samt fáum eða jafnvel engum frambjóðendum á þing vegna kosningafyrirkomulagsins. Þannig fékk Þjóðfylkingin, undir forystu Marine LePen, aðeins átta þingmenn í kosningunum í fyrra, þrátt fyrir að þrettán prósent kjósenda hefðu greitt flokknum atkvæði sitt.

Breytingarnar eru í samræmi við þá stefnu sem Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, boðaði í kosningabaráttu sinni í fyrra. Í dag eri 577 þingmenn í fulltrúadeildinni en 348 í öldungadeild. Meirihluti í báðum deildum þarf að samþykkja frumvarpið svo það verði að lögum.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV