Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Frábærar viðtökur í Royal Albert Hall

Mynd með færslu
 Mynd:

Frábærar viðtökur í Royal Albert Hall

23.08.2014 - 00:10
Sinfóníuhljómsveit Íslands hlaut fádæmagóðar viðtökur áheyrenda í Royal Albert Hall í Lundúnum í kvöld, en tónleikar hljómsveitarinnar voru hluti af Proms-tónlistarhátíð breska ríkisútvarpsins BBC. Sveitin lék tvö aukalög og var ákaft fagnað.

Proms-hátíðin hefur verið haldin síðan 1895 og á sér enga sína líka í heiminum á sviði klassískrar tónlistar. Royal Albert Hall tekur 5000 manns í sæti og var húsið nær fullt í kvöld. Að sögn Sigrúnar Eðvaldsdóttur konsertmeistara var þó enginn skrekkur í hljómsveitinni fyrir tónleikana, en fréttamaður sló á þráðinn til Sigrúnar að þeim loknum.

Okkur leið öllum svo vel - það var eins og við hefðum spilað þarna í fimmtíu ár. Það var enginn stressaður - þetta var bara algjörlega dásamlegt, ég get ekki útskýrt þetta öðruvísi,“ sagði Sigrún.

Á efnisskránni voru verkin Magma eftir Hauk Tómasson og Geysir eftir Jón Leifs auk píanókonserts Schumanns, en einleikari með hljómsveitinni í honum var bandaríski píanóleikarinn Jonathan Biss. Fráfarandi aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ilan Volkov, hélt um tónsprotann. Síðasta verkið á efnisskránni var fimmta sinfónía Beethovens, en þá var ekki allt búið. Hljómsveitin svaraði dynjandi lófataki áheyrenda með aukalagi, Hughreystingu eftir Jón Leifs, sem strengjaleikarar hljómsveitarinnar léku.

Það er alveg rosalega fallegt verk og mér finnst titillinn á verkinu eiga svo vel við núna vegna þess sem er að gerast í heiminum,“ sagði Sigrún. Svo þegar við erum búin að spila þetta fallega strengjaverk sem gekk bara mjög vel, þá bara var klappað og klappað, og þá spiluðum við Á sprengisandi - og þá varð allt brjálað.

Upptaka af tónleikum hljómsveitarinnar er væntanleg inn á vef RÚV, en tónleikunum var einnig útvarpað beint á klassísku tónlistarrás breska ríkisútvarpsins, BBC3, og má nálgast þá upptöku hér.

[email protected]